Innlent

Lungnateppa orðin fjórða algengasta dánarorsök Íslendinga

Svavar Hávarðsson skrifar
Reykingar eru langstærsti áhættuþátturinn vegna lungnateppu – sem er lífshættulegur sjúkdómur og ólæknandi. 
fréttablaðið/ap
Reykingar eru langstærsti áhættuþátturinn vegna lungnateppu – sem er lífshættulegur sjúkdómur og ólæknandi. fréttablaðið/ap
Talið er að 16.000 til 18.000 Íslendingar 40 ára og eldri glími við langvinna lungnateppu (LLT). Einn af hverjum tíu hefur talsverð eða alvarleg einkenni. Sjúkdómurinn er nú fjórða algengasta dánarorsök Íslendinga.

Sjúkdómsbyrðin vegna langvinnra öndunarfærasjúkdóma er álíka mikil og vegna brjósta- og blöðruhálskrabbameins, krabbameins í eggjastokkum og í endaþarmi – samtals.

Þetta kemur fram í skrifum Hans Jakobs Beck, yfirlæknis lungnateymis Reykjalundar, og Guðbjargar Pétursdóttur, hjúkrunar- og teymisstjóra, í nýjasta fréttablaði SÍBS.

Hans Jakob segir að langvinnir öndunarfærasjúkdómar fari hljótt miðað við hversu miklum heilsufarsskaða þeir valda.

„Þetta er mikið rætt á alþjóðavettvangi, hversu hulið þetta vandamál er. Fólk ber sjúkdóminn ekki utan á sér fyrr en hann er langt genginn og skýringarinnar er kannski að leita þar,“ segir Hans Jakob og bætir við að rannsóknir hafi sýnt að 18 til 19 prósent fólks 40 ára og eldri uppfylli greiningarskilmerki fyrir sjúkdóminn. Helmingurinn af þeim er á stigi eitt og einkennalaus með öllu.

Hans Jakob Beck
„Hinn helmingurinn er með sjúkdóminn á því stigi að hann fer að draga úr lífsgæðum fólks og einkenni fara að koma í ljós,“ segir Hans Jakob og bætir við að langvinn lungnateppa sé ólæknandi en þó hægt að halda einkennum niðri með réttri meðferð.

Þegar horft er til aukinnar dánartíðni hérlendis af völdum lungnateppusjúkdóma verður að hafa hugfast að margir af fjölmennustu árgöngum þjóðarinnar, fólk fætt á árunum 1950 til 1965, er að komast á þann aldur sem sjúkdómarnir leggjast á fólk. Því má búast við því að næstu tíu til tuttugu árin muni ástandið verða alvarlegt, áður en samdráttur í reykingum síðustu ára fer að segja til sín í fækkun sjúkdómstilfella.

Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma á undanförnum árum, en lungnasjúkdómar eru ekki ofarlega í huga fólks. Þessu er full ástæða til að breyta að sögn Hans Jakobs. Þá sé eftir að minnast á þjóðfélagslegan kostnað, en lungnalyf vega sífellt meira í heildarlyfjakostnaði þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×