Lífið

Upplifði mikinn lúxus á setti

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Ég er með samning við Borgarleikhúsið og hef leikið í ár þar á fullu. Ég hef mikla ástríðu fyrir leikhúsinu og þroskast sem leikari á sviði,“ segir Arnar.
„Ég er með samning við Borgarleikhúsið og hef leikið í ár þar á fullu. Ég hef mikla ástríðu fyrir leikhúsinu og þroskast sem leikari á sviði,“ segir Arnar. Vísir/GVA
„Ég mætti í prufu með vini mínum og Darren Aronofsky bað mig um að öskra og láta eins og ég væri í stríði. Ég gerði það og honum leist á mig og vildi endilega fá mig í myndina,“ segir leikarinn Arnar Dan Kristjánsson. Hann leikur Abel, son Adams og Evu, í stórmyndinni Noah sem frumsýnd verður hér á landi í Egilsbíói á morgun. Myndin var tekin upp hér á landi sumarið 2012 og er leikstjórinn enginn annar en Darren Aronofsky sem hefur meðal annars leikstýrt myndunum The Wrestler og Black Swan.

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur Cain, bróður Abels, í myndinni.

„Við fengum trailer út af fyrir okkur og upplifðum mikinn íburð í öllu sminki. Ég held að það sé algjör ógjörningur að greina að þetta hafi verið ég. Við Jói lékum í einni senu saman þar sem við glímdum. Við unnum þá senu með kóreógrafer og aðila sem sá um áhættuatriði og sýndum Darren síðan senuna. Hann var ekki alveg nógu sáttur við hana, tók sjálfur völdin og leikstýrði okkur aftur þannig að við bjuggum til nýja senu með honum,“ segir Arnar. Hann segir það hafa verið mikla upplifun að vera á setti Hollywood-stórmyndar, þó það hafi ekki verið nema einn tökudagur.

„Við spjölluðum meðal annars við Anthony Hopkins og Patti Smith og hlustuðum á Emmu Watson segja okkur hvað hún elskaði íslenska tónlist mikið. Svo var yndisleg kona sem bar ofan í okkur ávexti og önnur sem passaði að við værum ekki þyrstir. Ég upplifði mikinn lúxus og það var gaman að taka þátt í þessu.“

Hann ber leikstjóranum Darren Aronofsky góða söguna.

„Hann er algjört góðmenni og mikill listamaður. Í kvikmyndaleikstjórn þarf að taka allar ákvarðanir snöggt og örugglega. Hann gerði það listilega vel og maður sá aldrei neinar efasemdir leika um hann. Hann tók afstöðu til hlutanna og fylgdi þeim eftir. Það er mjög þakklátt að vinna undir svoleiðis leikstjóra. Hann bar líka mikla virðingu fyrir landinu og fannst gott að vera hér,“ segir Arnar. Hann ætlar að skella sér á myndina þó hann viti ekki hvort senan hans hafi verið tekin út eður ei.

„Ég veit ekki hvort maður er hreinlega köttaður út eða ekki. Ég vona að ég komi í kreditlistanum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.