Lífið

„Ég slapp ómeiddur og örlítið niðurlægður“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Stefán Karl stígur aftur á sviðið í kvöld, hvergi banginn.
Stefán Karl stígur aftur á sviðið í kvöld, hvergi banginn.
„Ég festist í flugsysteminu í Þjóðleikhúsinu. Ég er svo sem ekki fyrsti leikarinn til að lenda í því. Amma mús hefur átt í pínulitlum erfiðleikum með þetta í Dýrunum í Hálsaskógi,“ segir leikarinn Stefán Karl Stefánsson. Hann lenti í því að festast í flugkerfi leikhússins í miðri sýningu á Spamalot í senu þar sem hann flýgur inn á sviðið sem galdrakarlinn Tumi.

„Senan á að vera vandræðaleg frá hendi höfundarins en hún varð raunverulega vandræðaleg og hættuleg á köflum,“ segir Stefán Karl með bros á vör. „Vírar sem toga mig inn og út af sviðinu festust þannig að í fyrsta lagi komst ég ekki inn á sviðið. Síðan þegar ég loksins komst inn á sviðið rauk ég upp í loft og út aftur. Ég sveiflaðist utan í leikmyndina, upp og niður, hægri og vinstri og snerist allur í vírunum,“ bætir hann við. Meðleikarar hans á sviðinu skemmtu sér konunglega yfir þessum spaugilegu hrakförum hans.

„Senan á að vera tvær til þrjár mínútur en endaði miklu lengri og því þurfti ég að fylla uppí götin með skellihlæjandi leikara á sviðinu. Ég efast um að þeir hafi heyrt það sem ég sagði, þeir hlógu svo mikið. Maður reynir alltaf eins langt og það nær að redda hlutunum en ég var hálf hjálparlaus, hangandi í tveimur línum og komst hvorki lönd né strönd.“

Spamalot hefur vakið lukku meðal íslenskra leikhúsgesta og er nóg af sýningum eftir. Stefán Karl er hvergi banginn og flýgur óhræddur á sviðið í kvöld.

„Ég slapp ómeiddur og örlítið niðurlægður. Þetta var mjög skemmtilegt og áhorfendur vældu úr hlátri. Það þýðir ekkert að vera lofthræddur og ég fæ nóg af tækifærum til að leika senuna eins og hún á að vera í nánustu framtíð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.