Lífið

Spennandi jóga sækir í sig veðrið á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðrún Darshan er jógakennari og hómópati og rekur jógastöðina Andartak.
Guðrún Darshan er jógakennari og hómópati og rekur jógastöðina Andartak. myndir/einkasafn
Kundalini-jóga er frábrugðið öðru jóga. Það byggir á taktföstum hreyfingum, þar sem þú ert að hreyfa þig í takt við andardráttinn. Þegar þú gerir það, þá fer hugurinn að slaka á,“ segir Guðrún Darshan, jógakennari og hómópati, en hún rekur jógastöðina Andartak í Skipholti.

Hún segir jóga vera góða líkamsrækt og meira en það. „Það dugir alveg að fara í Kundalini-jóga, það er mjög kröftugt og vel hægt að koma sér í gott form,“ segir Guðrún um jógað.

Í Kundalini-jóga er lögð áhersla á miðju líkamans og magi og bak tekin vel fyrir í tímum. „Við erum líka að styrkja taugakerfið, það skiptir miklu máli.

Margar æfingar sem iðkaðar eru í Kundalini-jóga eru þannig að þær reyna mikið á, og um leið er reynt að slaka á.

„Við reynum að slaka þegar við æfum erfiðar æfingar. Það er sérstaklega gott fyrir keppnisfólk og fólk sem er undir miklu álagi, sem gildir um flest fólk í nútímasamfélagi,“ bætir Guðrún við.

Allir tímar enda á slökun og hugleiðslu.
Í lok hvers tíma er alltaf farið í slökun og hugleiðslu. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum mikið á ferðinni að kunna að slaka á. Við þurfum að kunna að slökkva á streitunni. Hugurinn eltir alltaf andardráttinn, þegar við förum að dýpka andardráttinn þá hægist á huganum og þá getur líkaminn farið að slaka á,“ útskýrir Guðrún.

Hún lærði árið 2004 en nú hafa útskrifast yfir hundrað kennarar. Hún segir jafnframt að fleiri konur en karlar sæki tímana.

Í jógastöðinni Andartaki er boðið upp á margvísleg námskeið og opna tíma í Kundalini-jóga. „Við ætlum að bjóða upp á fría hugleiðslu á morgnana út mars, þar sem leggja má til frjáls framlög sem munu renna til átaksins Mottumars,“ segir Guðrún og bætir við að jógað sé að verða mjög vinsælt hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.