Lífið

Verzlingar styrkja Mottumars

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Höfundar bókarinnar, Matreiðslubók meðalmannsins, f.v. Ingimar, Willard, Elsa, Harpa og Ásgrímur.
Höfundar bókarinnar, Matreiðslubók meðalmannsins, f.v. Ingimar, Willard, Elsa, Harpa og Ásgrímur. mynd/einkasafn
„Okkur fannst vanta einfalda og þægilega matreiðslubók og ákváðum að kýla á þetta,“ segir Willard Nökkvi Ingason, en hann ásamt þeim Hörpu Hjartardóttur, Elsu Kristínu Lúðvíksdóttur, Ingimari Erni Oddssyni og Ásgrími Gunnarssyni gáfu á dögunum út matreiðslubókina Matreiðslubók meðalmannsins.

Þau eru að læra frumkvöðlafræði í Verzlunarskóla Íslands en í þeim áfanga stofnuðu þau sprotafyrirtækið Ambrosia sem merkir guðamatur í grískri goðafræði.

Þau bjuggu til matreiðslubókina alveg sjálf og lögðu mikinn metnað í hana. „Bókin er algjörlega gerð af okkur, við gerðum allar uppskriftirnar, tókum allar myndir og hönnuðum allt sem við kemur bókinni,“ útskýrir Willard Nökkvi.

Ambrosia gerði samning við Mottumars og mun allur ágóði af sölu bókarinnar renna til styrktar Krabbameinsfélagsins. „Bókin kostar ekki nema tvö þúsund krónur stykkið. Einnig hófum við samstarf við eigendur Eymundsson sem sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og verður bókin seld í verslunum þeirra á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Það ættu allir að geta eldað eitthvað úr bókinni,“ segir Willard Nökkvi.

Í bókinni er einblínt á einfalda rétti sem taka stuttan tíma í framkvæmd og eitthvað sem allir ættu að geta eldað. „Ásgrímur fékk hugmyndina og í upphafi var mikið spáð í „smoothie“-drykkjum og þess háttar. Í kjölfarið var farið að safna ýmsum uppskriftum og kom hver meðlimur í hópnum með allavega tíu uppskriftir, eldaði þá rétti og tók myndir af þeim,“ segir Willard Nökkvi um framkvæmdina. Hann bætir þó við að stelpurnar í hópnum séu aðeins betri kokkar. „Þær eru líklega bestu kokkarnir og þær komu líklega með aðeins fleiri uppskriftir.“

Þau hófu að safna uppskriftum í janúar. „Við tókum um það bil mánuð í að safna uppskriftum og svo fór hálfur mánuður í uppsetningu og frágang.“

Hér má lesa meira um bókina og hópinn.

Döðlunammi
Uppskrift úr bókinni: Döðlunammi:

Hráefni360 g ferskar döðlur

240 g smjör

120 g púðursykur

3 bollar Rice Krispies

300 g suðusúkkulaði

Aðferð

1. Saxið döðlur smátt.

2. Döðlur, smjör og púðursykur sett saman í pott. Allt brætt saman á vægum hita.

3. Setjið Rice Krispies út í pottinn og blandið vel saman.

4. Allt sett í álform ca. 30x30 cm og þjappað vel í mótið og látið kólna.

5.Þegar döðlunammið er orðið nógu kalt er suðusúkklaði brætt og hellt yfir.

6. Að lokum er nammið aftur kælt og skorið í litla bita. Geymist best í ísskáp eða frysti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.