Innlent

Skóvinnustofa orðin að kvennavinnustað

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jónína Sigurbjörnsdóttir, lærður skósmiður, Birna Jóna Magnúsdóttir, lærð í skóviðgerðum, og Sandra Björk Rúdólfsdóttir sjúkraskósmiður.
Jónína Sigurbjörnsdóttir, lærður skósmiður, Birna Jóna Magnúsdóttir, lærð í skóviðgerðum, og Sandra Björk Rúdólfsdóttir sjúkraskósmiður. Vísir/GVA
Á Skóvinnustofu Sigurbjörns Þorgeirssonar starfa fjórir skósmiðir, þrjár konur og einn karl. Jónína Sigurbjörnsdóttir, eigandi skóvinnustofunnar, segir breytta tíma í iðngreininni en hún var fyrsta konan sem útskrifaðist sem skósmiður á Íslandi árið 1980.

Jónína er alin upp á skóvinnustofunni en faðir hennar rak fyrirtækið og því leiddi það af sjálfu sér að hún lagði greinina fyrir sig.

„Þetta þótti skrítið á sínum tíma, fólk spurði hvort það mætti tala við skósmiðinn þegar ég kom í afgreiðsluna. Það er reyndar einn og einn sem gerir það enn í dag en það er ósköp fátítt.“

Strangt til tekið mætti formlega skilgreina skóvinnustofuna sem kvennavinnustað í dag þar sem 75 prósent starfsmanna eru konur.

„Skósmíði er ekki lengur karlafag. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að ég útskrifaðist og það þykir ekki eins merkilegt að konur starfi í faginu í dag. Fyrr á árum var starfið óþrifalegra og skósmiðir voru oft einir að vinna í dimmum kjöllurum. Það hefur kannski fælt konurnar frá.“

Hún segir skósmíði alls ekki vera karlmannlegt starf. „Starfið krefst ekki krafta. Eitt og eitt skipti tekur það líkamlega á en fyrst og fremst er þetta vélavinna og að beita verkfærum á nákvæman hátt. Svo er starfið ekki eins skítugt og það var, maður fær auðvitað lím á puttana en af hverju ættum við konur ekki að þola það líka?“ segir Jónína glettin.

Hún segir að það hafi verið gott að fá kvengenin í stéttina. Smágerðar kvenhendur eigi auðveldara með að komast innst í skóna og vinnan sé mjög fínleg og nákvæm.

„Ég finn að margir koma til okkar því það eru konur sem vinna hérna. Kannski finnst konum gott að tala við konur um kvenskó. Allavega er smá „þú skilur mig svo vel“-stemning í afgreiðslunni þegar konur koma með brotna hæla eða önnur vandamál tengd kvenskóm.“

Strákarnir koma síður í „stelpufögin“

Kynjaskiptingin í skósmíðanámi hefur verið alveg jöfn síðastliðin ár. Sigríður Ágústsdóttir, skólastjóri Hönnunar- og handverksskóla Tækniskólans, segir konur þó frekar sérhæfa sig eða fara í framhaldsnám. 

„Konurnar fara síður í þessa hefðbundnu viðgerðarþjónustu en það eru þó alltaf einhverjar. Konurnar fara gjarnan að vinna hjá stoðtækjafyrirtækjum eða sérhæfa sig í skóvandamálum.“

Sigríður segir konum vera að fjölga verulega í iðngreinum sem áður hafa verið hefðbundnar karlagreinar. Fyrr á árum voru það nær eingöngu karlar sem lærðu gull- og silfursmíði en í dag eru konurnar orðnar fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×