Lífið

Fyrsta fjallaskíðamótið á Íslandi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Tómas Einarsson, fjallaskíðakappi.
Tómas Einarsson, fjallaskíðakappi. MYND/ÚR EINKASAFNI
„Þetta er eins og að klappa ketti,“ segir Tómas Einarsson fjallaskíðakappi um skinnin sem sett eru undir fjallaskíði. Fjallaskíði eru ólík venjulegum skíðum að ýmsu leyti.

„Skinn eru sett undir skíðin til að það sé hægt að ganga á þeim, jafnvel upp brekkur,“ segir Tómas. „Skinnin eru með stuttum hárum. Þau liggja þannig að þú getur rennt þér aðeins áfram,“ segir Tómas. „Skíðin sjálf eru sosum ekki mjög ólík venjulegum skíðum, þótt þau séu aðeins breiðari. Aðalmunurinn er sá að hægt er að losa upp hælinn á bindingunum fyrir klossana þannig að þú ert frjálsari til gangs á skíðunum.“

Tómas Einarsson var skilinn eftir á Akureyri á meðan vinir hans gengu á Hvannadalshnjúk.MYND/Eiríkur Geir Ragnarsson
Hópurinn sem stundar fjallaskíðamennsku fer ört stækkandi. „Þetta er alltaf að öðlast meiri og meiri vinsældir, þessi skíðamennska. Það er í rauninni hægt að stunda þetta nánast allt árið. Eins og þetta er búið að vera núna síðastliðið ár er hægt að komast á skíði alla mánuði ársins,“ segir Tómas sem byrjaði að stunda fjallaskíðamennsku fyrir fjórum árum. 

„Ég hef ekki alltaf verið mikill skíðamaður, en tók upp á því fyrir um sex eða sjö árum. Krakkarnir eru búnir að vera að æfa á skíðum og ég hef fylgt þeim. Síðan lá beinast við að fara út í fjallaskíðamennsku meðfram hinu. Þetta er að vissu leyti meira krefjandi en venjuleg skíðamennska. Þú verður að geta gengið upp til að geta rennt þér niður. Það er ekki minnsta gleðin við það að vera úti í náttúrunni og bara ganga,“ segir Tómas. 

Tómas er búsettur á Ólafsfirði. „Svæðið hérna á Tröllaskaganum er paradís fyrir svona skíðamennsku. Svo er fólk alveg að fara upp á jökla á fjallaskíðum, til dæmis á Hvannadalshnjúk. Þá næst alveg ævintýralega langt rennsli. Ég hef hins vegar verið mest hér á þessu svæði á Tröllaskaganum,“ segir Tómas.

Fjallaskíði eru frábrugðin venjulegum skíðum að ýmsu leyti.
„Ég var nefnilega skilinn eftir þegar hópurinn fór upp á Hvannadalshnjúk,“ segir Tómas. „Það var þannig að Andrésarleikarnir voru haldnir akkúrat sömu helgi. Sonur minn var að keppa, og það var ekki hægt að sleppa því. Á meðan fór kunningjahópurinn á Hvannadalshnjúk. Það tók víst mjög á, ekki síst andlega, þetta er svo langur gangur.“

Á föstudaginn langa verður haldið fyrsta fjallaskíðamótið hér á landi. 

„Þá er gengin ákveðin leið sem við erum ekki alveg búin að negla niður. Þurfum að meta veður og aðstæður á keppnisdegi. Þetta snýst um það hver er fyrstur í mark. Það verður hópstart. Síðan er gengin ákveðin leið. Menn þurfa að skíða niður einhverjar brekkur, og síðan jafnvel að ganga aftur og skíða aftur niður. Við komum til með að birta frekari upplýsingar þegar nær dregur,“ segir Tómas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.