Lífið

Næsti bar leggur niður starfsemina

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Augustin Navarro Cortés, fyrrverandi eigandi Næsta bars, ætlar að endurvekja Kaffi list á næstunni.
Augustin Navarro Cortés, fyrrverandi eigandi Næsta bars, ætlar að endurvekja Kaffi list á næstunni. fréttablaðið/daníel
„Það hafa margir viljað kaupa staðinn undanfarna mánuði og því fór ég að hugsa að það væri kannski rétt að selja staðinn núna. Ég er að leita að öðrum stað og ætla að opna nýjan stað sem allra fyrst,“ segir Augustin Navarro Cortés, fyrrverandi eigandi Næsta bars sem var lokað um liðna helgi.

Augustin opnaði Næsta bar árið 2008 og hefur staðurinn verið einn vinsælasti skemmtistaður höfuðborgarinnar þann tíma. „Það var mjög ánægjulegt að sjá að fólk tók það til sín að ég væri að fara loka staðnum, fólki þykir greinilega vænt um staðinn,“ segir Augustin. Staðurinn var einkar vinsæll því þar var ekki of hávær tónlist og þar var einnig mikið af góðum víntilboðum að finna.

Hann segist elska fólk og hann hafi unnið á bar síðan hann var ungur. „Ég byrjaði að vinna á bar fjórtán ára gamall, á Benidorm. Ég flutti til Íslands árið 1986.“

Augustin hefur í hyggju að opna nýjan stað á næstunni. „Nýi staðurinn á að heita Kaffi list. Ég opnaði Kaffi list árið 1992 en hætti með hann árið 1999,“ segir Augustin sem ætlar að endurvekja gamla staðinn. Þar langar hann að bjóða upp á tapas og smárétti. „Mig langar líka að bjóða upp á rétt dagsins. Hafa einn veglegan rétt.“

Augustin ætlar að opna Kaffi list um leið og hentugt húsnæði finnst. „Ég elska þetta og þetta er mitt líf. Næsti bar var eins og kirkjan mín. Ég þakka öllum gestum mínum fyrir komuna og öllu mínu frábæra samstarfsfólki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.