Lífið

Vill mynda nakið kvenfólk

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Mirko Kraeft
Mirko Kraeft Vísir/Mirko Kraeft
„Ég er að leita að íslenskum konum á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára til að sitja fyrir, naktar,“ segir þýski ljósmyndarinn Mirko Kraeft, sem er hingað kominn til lands frá Berlín, til þess að mynda lokaverkefni sitt við Berliner Technische Kunsthochschule, sem er listaháskóli þar í borg.

Mirko kom fyrst hingað til lands í september í fyrra.

„Fyrir utan þessa ótrúlega fallegu birtu, fannst mér óvanalegt landslagið einstaklega heillandi,“ segir hann og bætir við:

„Litirnir og formin í náttúrunni virtust renna saman í eitt, sem var eitthvað sem ég hafði aldrei áður séð, hvorki fyrr né síðar. Bylgjótt yfirlagið er eins og einhver sjónbrella – eins og það séu lík sem liggi undir jörðinni,“ segir hann og bætir við að honum hafi þótt mikið til íslenskra kvenna koma.

Vísir/Mirko Kraeft
„Íslenskar konur eru eins og íslenska náttúran; ljós húð sem skín á, hár sem flæðir og augun eru eins og ísjakar í Atlantshafinu. Ég var virkilega djúpt snortinn eftir þessa heimsókn mína,“ segir hann og segist hafa ákveðið þá og þegar að láta lokaverkefni sitt við listaháskólann fjalla um þetta.

Mig langar til þess að heimfæra þessa kvenlegu fagurfræði upp á íslensku náttúruna – mig langar til þess að rannsaka þetta betur.“

Mirko keypti sína fyrstu myndavél fyrir fimm árum. 

„Ég varð ástfanginn af ljósmyndun. Ég hætti í skólanum, þar sem ég var að læra verkfræði, til þess að einbeita mér að ljósmynduninni. Nú hef ég mestan áhuga á portrettlist og hygg á frama í ljósmyndun,“ segir Mirko að lokum – en áhugasamar fyrirsætur geta haft samband á mirkokraeft@googlemail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.