Lífið

Háspenna – lífshætta

Laufey Helgadóttir.
Laufey Helgadóttir. Vísir/Daníel
Á föstudaginn 7. mars klukkan átta verður opnuð yfirlitssýning á verkum Magnúsar Kjartanssonar myndlistarmanns í Listasafni Íslands.

„Þetta er búið að standa til lengi,“ segir Laufey Helgadóttir sýningarstjóri, en Magnús lést árið 2006, aðeins 57 ára gamall. Sýningin heitir Form, litur, líkami: Háspenna/Lífshætta.

„Titillinn lýsir ferli Magnúsar mjög vel. Hann byrjaði sem formalisti, fór síðan út í að gera samklippur og verk í anda popplistarinnar áður en hann fór að gera alls konar tilraunir með ljósmyndatækni. Þá bætti hann stundum inn í verkin sín setningunni „Háspenna/Lífshætta“. Líf Magnúsar og ferill voru svolítið þannig. Hann fór út á ystu nöf, var ögrandi, gagnrýninn, beinskeyttur, og veigraði sér ekki við að takast á við viðfangsefni sem aðrir þorðu ekki að taka á.“

Magnús gerði til dæmis myndir þar sem hann notaði sinn eigin líkama, hendur, fætur, og bókstaflega allan líkamann.

„Hann makaði málningu á sig, lagðist á léreftið og útkoman varð mjög sterkar og óvanalegar sjálfsmyndir,“ segir Laufey.

„Hann gekk nærri sjálfum sér, til dæmis með því að nota iðulega hættuleg efni í verkin sín.

Eftir að ljósmyndatímabilinu lauk fór hann að mála stór olíuverk þar sem hann notaði alls konar fundið efni og undir lokin gerði hann myndir með trúarlegum viðfangsefnum,“ heldur Laufey áfram og bætir við að þessi ólíku skeið hafi jafnvel verið ólík innbyrðis.

„Magnús var frábær listamaður, eins konar endurreisnarmaður, sem lést langt fyrir aldur fram og þetta er í fyrsta sinn sem er gerð úttekt á honum. Þetta er yfirgripsmikil sýning sem verður í fjórum sölum í safninu,“ segir Laufey að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.