Lífið

Prjónaði með trommukjuðum

Ugla Egilsdóttir skrifar
Mynd úr veiðiferð myndlistarnema.
Mynd úr veiðiferð myndlistarnema. MYND/ÚR EINKASAFNI
„Ég er að prjóna ullarteppi sem er innblásið af ófærð,“ segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, einn myndlistarnemanna sem opna sýningu í Skaftfelli á Seyðisfirði í dag. Útskriftarnemar við myndlistardeild Listaháskóla Íslands setja upp sýningu á Seyðisfirði á hverju ári.

Námskeiðið hefur þó aldrei verið eins fjölmennt og nú. Nemendur dvöldu á Seyðisfirði í tvær vikur og reyndu á eigin skinni einangrun og óvissu sökum veðurs og ófærðar. „Ég prjónaði teppið með trommukjuðum. Það voru hentugustu prjónarnir sem ég fann hér á svæðinu. Ég var ekki með prjónadótið með mér. Ef ég hefði tekið með mér prjóna hefði ég heldur ekki tekið svona grófa prjóna með. Svo er ég að prjóna þetta úr ull sem er spunnin af ullarvinnslu frú Láru hérna á staðnum. Ég fékk hugmyndina að veggteppinu af myndum úr vefmyndavél Vegagerðarinnar sem var mál málanna um síðustu helgi. Sumir listnemarnir voru að reyna að komast hingað með misjöfnum árangri út af ófærðinni,“ segir Sigrún Hlín.

Útskriftarnemar í myndlistardeild við Listaháskóla Íslands opna sýninguna Veldi í Skaftfelli á Seyðisfirði laugardaginn 1. mars klukkan 16. Sýningin er opin alla daga og stendur til 2. júní næstkomandi. Frekari upplýsingar um opnunartíma er að finna á vefsíðu Skaftfells, skaftfell.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.