Lífið

Leikari af nagdýrakyni

Ugla Egilsdóttir skrifar
„Tobba er rosalega fjörug á sviðinu og hleypur út um allt í ferðabúrinu,“ segir Nína Rún Bergsdóttir.
„Tobba er rosalega fjörug á sviðinu og hleypur út um allt í ferðabúrinu,“ segir Nína Rún Bergsdóttir. fréttablaðið/valli
„Aðalleikarinn í leikritinu er með dýraofnæmi,“ segir Nína Rún Bergsdóttir, sem segja má að sé yfirdýratemjari í leiksýningunni Furðulegt háttalag hunds um nótt. „Það er Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Þetta er samt alls ekkert bráðaofnæmi hjá honum og við sjáum til þess að hann fái ekki ofnæmiskast. En þetta er bagalegt, því að hann er mest með bæði rottuna og hundinn í leikritinu,“ segir Nína.

„Rottan“ heitir Tobba og er reyndar ekki af rottukyni. „Tobba er af tegundinni degu, sem er nagdýrategund, líkist íkorna mikið, en sleppur fyrir rottu á Stóra sviðinu. Í fyrsta eða annað skiptið sem ég náði að halda á Tobbu, þegar ég var enn að hæna hana að mér, náði hún einhvern veginn að skríða upp á öxlina á mér og inn undir fötin mín. Ég var frekar lengi að ná henni innan úr fötunum mínum. Núna er Tobba rosalega gælin. Hún er mikið fyrir athyglina, vill láta halda á sér og klappa sér. Hún nartar aðeins í mann, en bítur alls ekki. Leikhúsgestir þurfa því ekkert að hræðast, jafnvel þótt hún sleppi. En það stendur nú ekkert til að hún sleppi,“ segir Nína.

Í sýningunni leikur einnig sex vikna gamall labradorhvolpur. „Hvolpurinn er í mjög strangri leikþjálfun um þessar mundir, svo hann taki ekki upp á því að fara út í sal eða pissa á sviðið. Við þurfum síðan að skipta hvolpinum út eftir tvo mánuði, því þá er hann ekki lengur hvolpslegur,“ segir Nína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.