Lífið

Safna fyrir baráttufólki í Úganda

Ugla Egilsdóttir skrifar
Sýningin á Call me Kuchu er fyrsti liðurinn í átaki Samtakanna '78 og Íslandsdeildar Amnesty til að safna fyrir grasrót hinsegin fólks í Úganda.
Sýningin á Call me Kuchu er fyrsti liðurinn í átaki Samtakanna '78 og Íslandsdeildar Amnesty til að safna fyrir grasrót hinsegin fólks í Úganda. 365/Gunnar V. Andrésson
„Auðvitað kjósa einhverjir að hverfa inn í skápinn við þessar aðstæður, en annað fólk er búið að ákveða að berjast og við ætlum að bakka upp þá baráttu,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna '78, sem standa ásamt Íslandsdeild Amnesty fyrir sýningu á heimildarmyndinni Call me Kuchu í Bíói Paradís í dag til styrktar hinsegin fólki í Úganda.

Miðaverð á heimildarmyndina er þúsund krónur, og upphæðin rennur óskipt til grasrótar hinsegin fólks í Úganda. „Löggjöfin, sem núna hefur verið sett, þrengir ofboðslega að þeim. Það er verið að herða reipið utan um hálsinn á þeim, og nógu slæmt var ástandið fyrir. Þessi hópur þarf auðvitað að huga að öryggi sínu og það er alls konar kostnaður sem myndast við lögfræðilega aðstoð, öryggisaðstoð og svo framvegis,“ segir Anna Pála.

„Samkynhneigð kona frá Úganda, sem heitir Angel P"Ojara, kemur og talar við sýningargesti í dag. Hún býr hér á landi og er vinkona baráttukonunnar Köshu Jaqueline Nabagesera, sem Amnesty bauð hingað til lands í fyrra. Angel er meðlimur í baráttusamtökum hinsegin fólks í Úganda sem við erum í samstarfi við. Ég býst við því að það verði mjög upplýsandi að ræða við hana um þróun mála,“ segir Anna Pála.

Call me Kuchu verður sýnd í Bíói Paradís í dag klukkan 18. Hægt er að kaupa miða frá klukkan 17. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.