Lífið

Falleg stund í Norðlingaskóla

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér er Nóni Sær Ásgeirsson, bróðir Svandísar Þulu við listaverkið sem minningarsjóðurinn hefur gefið Norðlingaskóla. Nóni Sær lamaðist fyrir neðan mitti í sama slysi og systir hans lést í árið 2006.
Hér er Nóni Sær Ásgeirsson, bróðir Svandísar Þulu við listaverkið sem minningarsjóðurinn hefur gefið Norðlingaskóla. Nóni Sær lamaðist fyrir neðan mitti í sama slysi og systir hans lést í árið 2006. mynd/helgi rafn jósteinsson
„Þetta er í annað sinn sem minningartónleikar fara fram en minningarsjóðurinn er sex ára gamall,“ segir Hrefna Björk Sigurðardóttir, móðir Svandísar Þulu, sem lést árið 2006 í umferðarslysi.

Minningartónleikarnir fara fram í Norðlingaskóla í kvöld, á afmælisdegi Svandísar Þulu, og hefjast klukkan 20.00. Bubbi Morthens, Eyþór Ingi og Atómskáldin, Ari Eldjárn og poppkórinn Stormsveitin koma fram á tónleikunum. Frítt er inn á tónleikana fyrir börn fimm ára og yngri en miðaverðið er þúsund krónur fyrir aðra og rennur ágóðinn í minningarsjóðinn. Hann hefur styrkt ýmis málefni.

„Minningarsjóðurinn hefur styrkt til dæmis leikskólana Blásali, Rauðhól og Æskukot en einnig Norðlingaskóla ýmist til bóka- eða tækjakaupa. Sjóðurinn hefur líka styrkt ballettdansara til keppnisferða erlendis,“ útskýrir Hrefna.

Svandís Þula var tengd stofnunum því hún var í leikskólanum Blásölum og var að fara flytjast yfir á leikskólann Rauðhól og svo hefði hún einnig gengið í Norðlingaskóla. Þá æfði hún ballett frá því hún var þriggja ára gömul.

Í kvöld mun minningarsjóðurinn færa Norðlingaskóla listaverk að gjöf.

„Þetta er margföldunartaflan merkt á stigann í Norðlingaskóla.“ Þá hefur sjóðurinn einnig styrkt samtökin Á allra vörum og Sumarbúðir lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. „Eftir tónleikana í fyrra styrktum við sorgarsamtökin Ný dögun og Sumarbúðir lamaðra og fatlaðra. Tónleikar í fyrra voru vel heppnaðir og mættu um 600 manns á þá,“ segir Hrefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.