Lífið

Keppst um útskriftarverkefni

Ugla Egilsdóttir skrifar
Hrefna Bragadóttir frétti af náminu í barnabókamyndskreytingu í gegnum Birgittu Sif "Hún er að gera góða hluti líka í barnabókamyndskreytingu,“ segir Hrefna.
Hrefna Bragadóttir frétti af náminu í barnabókamyndskreytingu í gegnum Birgittu Sif "Hún er að gera góða hluti líka í barnabókamyndskreytingu,“ segir Hrefna.
Fjögur bresk bókaforlög hafa falast eftir því að fá að gefa út útskriftarverkefni Hrefnu Bragadóttur úr námi hennar í barnabókamyndskreytingu frá Cambridge School of Arts. „Það er mikla vinnu að fá í augnablikinu,“ segir Hrefna. Bæjarblaðið í Cambridge, Cambridge News, fjallaði um áhuga útgefenda á verkefni Hrefnu í gær. „Þau hringdu í mig og báðu um teikningu eftir mig til að birta með fréttinni. Núna er ég bara að vinna úr tilboðunum og reyna að taka rétta ákvörðun. Svo fékk ég tvö atvinnutilboð í teiknimyndagerð bara í síðustu vikuna, og fæ svo símtal frá Fréttablaðinu í dag! Hvað er í gangi?“





TEIKNARI Hrefna hefur búið í Bretlandi frá sautján ára aldri.
Hrefna útskrifaðist árið 2004 með BA í teiknimyndagerð fyrir sjónvarp. „Síðan vann ég í átta ár við að gera teiknimyndir, meðal annars fyrir BBC. Svo langaði mig að breyta til vegna þess að ég saknaði þess að teikna meira, en í teiknimyndabransanum er allt gert í tölvu. Þess vegna fór ég í meistaranám í Cambridge School of Arts þaðan sem ég útskrifaðist núna í febrúar. Við útskriftarnemendurnir héldum útskriftarsýningu í London í síðustu viku. Eftir það hafa fjórir útgefendur haft samband við mig. Tveir eru búnir að gera mér tilboð og ég hitti hina tvo á miðvikudaginn.“

Sagan sem Hrefna skrifaði og myndskreytti fjallar um persónu sem heitir Nelson. 

„Hann dreymir um að vera aðalpersóna í barnabók. Fyrst heldur hann að það sé voðalega auðvelt og fer í áheyrnarprufu með alls konar björnum og úlfum og músum, svona dýrum sem eru dæmigerðar persónur í barnabókum. Nelson fer á svið og sýnir kúnstir sínar. Honum er hafnað af því að öllum finnst hann vera of skrítinn. Þá fer hann að reyna að vera eins og hinir. Hann reynir að vera eins og björninn, reynir að vera eins og úlfurinn, en að lokum fattar hann að hann getur ekki þóst vera neinn annar. Hann fattar á endanum að hann er í bók, og hann er búinn að vera sögupersóna allan tímann,“ segir Hrefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.