Lífið

Til í að leika ef Balti hringir

Ugla Egilsdóttir skrifar
Steiney Skúladóttir tók við verðlaunum fyrir hönd móður sinnar, sem er í heimsreisu.
Steiney Skúladóttir tók við verðlaunum fyrir hönd móður sinnar, sem er í heimsreisu. Vísir/Daníel
„Báðir foreldrar mínir og báðar ömmur eru leikarar, það er alveg nóg,“ segir Steiney Skúladóttir, sem stal senunni á Eddunni þegar hún tók við verðlaunum fyrir hönd Halldóru Geirharðsdóttur, móður sinnar. Steiney ætlar ekki að leggja leiklistina fyrir sig þrátt fyrir að henni kippi greinilega í kynið, en hún stundar nám við Háskóla Íslands. „Ef Balti hringir og býður mér hlutverk þá slæ ég samt ekkert hendinni á móti því.“

Steiney ákvað fyrirfram hvað hún ætlaði að segja. „Nema þetta „hashtag swag“. Ég var heldur ekki búin að ákveða fyrirfram að húrrahrópin yrðu svona mörg. Ég missti mig aðeins í gleðinni.“

Steiney skemmti sér á Eddunni. „Dorrit kom og sagði að ég hefði verið mjög flott, og Ólafur Ragnar bað að heilsa mömmu,“ segir Steiney. „Og ég gleymdi Eddunni inni á klósetti. Dagur B. Eggertsson og konan hans höfðu áhyggjur og buðust til að taka hana með sér heim,“ segir Steiney.

Steineyju fórst svo vel úr hendi að taka við verðlaununum að blaðamanni Fréttablaðsins þykir ekki ólíklegt að óskyldir verðlaunahafar fari að falast eftir því að hún veiti hvers kyns verðlaunum viðtöku fyrir sína hönd. „Ég geri það aðeins gegn greiðslu eða í skiptum fyrir einhvers konar fríðindi,“ segir Steiney. „Mig vantar til dæmis iPhone.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.