Lífið

Harro leikur að lógóum

 Berglind Jóna stýrir smiðjunni í tengslum við sýningu Harros á Kjarvalsstöðum.
Berglind Jóna stýrir smiðjunni í tengslum við sýningu Harros á Kjarvalsstöðum. Vísir/Hörður
Í dag verður boðið upp á námskeið fyrir börn á aldrinum átta til tólf ára í Hugmyndasmiðjunni á Kjarvalsstöðum.

Listakonan Berglind Jóna Hlynsdóttir býður krökkum að taka þátt í heimspekismiðju í tengslum við sýningu á verkum eftir finnska listamanninn Harro.

„Markmið námskeiðsins er að vekja spurningar um sjónræna áreitið í kringum okkur og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar,“ segir í fréttatilkynningu.

Listamaðurinn Harro hefur tekið vörumerki þekktra fyrirtækja og snúið út úr þeim á skoplegan hátt.

Á sýningu Harros er sjónum aðallega beint að popplistaverkum hans frá árunum 1968 til 1972, en þau ollu uppnámi þegar þau voru fyrst sýnd í Finnlandi. Í verkunum byggir hann meðal annars á finnska fánanum, á vörumerkjum alþjóðlegra fyrirtækja og svínum svo eitthvað sé nefnt.

Farið verður í stutta leiðsögn um sýningu Harros og fjallað um valin verk og að lokum verður smiðja þar sem þátttakendur fá að gera sínar eigin tilraunir.

Berglind Jóna Hlynsdóttir hefur í verkum sínum unnið með pólitískar táknmyndir og hugmyndina um vörumerki með undirliggjandi samfélagsrýni. Foreldrum er velkomið að taka þátt.

Námskeiðið stendur frá kl. 13-16, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

olof@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.