Lífið

Skyggnumst inn í rokkstjörnulífsstílinn

Sunneva hlakkar til að takast á við þáttagerðina
Sunneva hlakkar til að takast á við þáttagerðina Vísir/Valli
„Prófíll er þáttur sem er miðaður við ungt fólk. Í hverjum þætti er tekin fyrir ein manneskja og líf hennar endurspeglað frá nokkrum vinklum,“ segir Sunneva Sverrisdóttir, sem kemur til með að stýra nýjum þáttum, Prófíl, sem hefja göngu sína á Popp TV á næstunni.

„Það er ótrúlega mikið af ungu, flottu fólki á Íslandi sem er að gera spennandi hluti. Í Prófíl fáum við að fylgja þessum viðmælendum eftir, tala við vini þeirra og ættingja og skyggnast frekar inn í líf þeirra,“ útskýrir Sunneva.

Í fyrsta þætti Prófíls verður Logi Pedro Stefánsson, best þekktur úr hljómsveitunum Retro Stefson og Highlands, tekinn fyrir.

„Við fylgjum honum, förum heim til hans og fáum aðeins að skyggnast inn í rokkstjörnulífsstílinn,“ segir Sunneva, létt í bragði.

Áhorfendur fá einnig tækifæri til að taka þátt í þættinum.

„Við ætlum að tengja þáttinn samfélagsmiðlum að því leyti að við deilum því á Facebook og á Instagram hver næsti viðmælandi þáttarins verður og gefum áhorfendum þannig tækifæri til að senda inn spurningar sem þeir vilja fá svör við,“ segir Sunneva.

Byrjað verður á sex þáttum í seríunni.

„Það verða semsagt ungir einstaklingar sem eru að gera áhugaverða hluti sem verða viðmælendurnir. Þeir koma úr mörgum mismunandi áttum, meðal annars úr tónlistarsenunni, sjónvarpsgeiranum og íþróttaheiminum, svo eitthvað sé nefnt,“ útskýrir Sunneva.

„Svo er aldrei að vita hvernig fer. Ef þetta gengur vel, þá getur vel verið að við höldum áfram og gerum fleiri þætti,“ bætir hún við.

Sunneva segir að hún hafi mikinn áhuga á fólki.

„Ég held að þetta verði alveg rosalega skemmtilegt og hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.