Innlent

Ríkið verndi starfsstöðvar fyrir vestan

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
 Ísfirðingar segja lokun útibús Fiskistofu í bænum átakanlegt dæmi um örlög opinberra starfsstöðva á landsbyggðinni.
Ísfirðingar segja lokun útibús Fiskistofu í bænum átakanlegt dæmi um örlög opinberra starfsstöðva á landsbyggðinni. Fréttablaðið/Stefán
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar segir að þó oft hafi tekist að koma fótunum undir opinberar starfsstöðvar sem eigi fullt erindi á Vestfirði þá fjari einhverra hluta vegna undan þeim þegar frá líði.

„Átakanlegt dæmi um þetta er lokun útibús Fiskistofu á Ísafirði. Þrátt fyrir mikilvægi Vestfjarða sem löndunarstöðvar á Íslandi er nú enginn starfsmaður Fiskistofu staðsettur þar. Nú eru einnig horfnir héðan starfsmenn í fiskeldiseftirliti, þrátt fyrir að sjókvíaeldi fisks sé bannað víðast hvar annars staðar en á Vestfjörðum, þar sem jafnframt er þriðjungur strandlengju Íslands,“ segir bæjarstjórnin sem vill að ríkið standi vörð um slíkar starfsstöðvar og óskar eftir viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um nauðsynlegar úrbætur.

Bæjarstjórnin segir mikilvægt að ríkið „komi af heilum hug að uppbyggingu fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á Vestfjörðum“ og kveðst ítreka „mikilvægi þess að uppbygging í tengslum við fiskeldi hvort sem það eru rannsóknir, eftirlit eða menntun verði byggt upp á Vestfjörðum, enda ljóst að umfangsmikil starfsemi er nú þegar í fiskeldi á svæðinu og er fyrirsjáanleg mikil aukning í náinni framtíð.“

Þá skorar bæjarstjórnin á Alþingi og ríkisstjórnina „að standa með Vestfirðingum og byggja upp öfluga miðstöð fiskeldis á Vestfjörðum á sviði eftirlits, rannsókna og menntunar í gegnum Háskólasetur Vestfjarða og Rannsóknasetur Háskóla Íslands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×