Skoðun

Kjarasamningur – skynsemi og ábyrgð

Ólafía B. Rafnsdóttir skrifar
Krafan um stöðugleika er hávær þessa dagana enda íslenskt launafólk orðið langþreytt á hárri verðbólgu og efnahagslegri óvissu. Þessum stöðugleika náum við hins vegar ekki nema við förum fram af skynsemi og ábyrgð, stéttarfélög, atvinnurekendur og hið opinbera. Um það snýst nýgerður kjarasamningur á almennum vinnumarkaði í raun og veru. Um það verður kosið á næstu dögum í stéttarfélögum eins og VR.

Ný vinnubrögð í kjarasamningagerð og ný viðhorf einkenna þennan kjarasamning og allan undirbúning hans. Hann byggist á sameiginlegri vinnu samningsaðila síðustu mánuði og vilja allra sem að honum komu til að ná fram markmiðum um aukinn kaupmátt og hjöðnun verðbólgu. Hagsmunir okkar fara hér saman – við viljum öll minni verðbólgu og meiri stöðugleika.

Samningurinn er stuttur, til eins árs. Á þessum tólf mánuðum fáum við það svigrúm sem við þurfum til að undirbúa langtímasamning sem á að stuðla að því efnahagslega umhverfi sem krafa er gerð um. Niðurstöður kannana meðal félagsmanna VR á síðustu vikum og misserum benda til þess að aukinn kaupmáttur skipti þá höfuðmáli. Það leggjum við áfram til grundvallar í þeim viðræðum sem framundan eru um kjarasamning til lengri tíma.

Leggjumst öll á eitt

Mikil umræða hefur verið síðustu daga um boðaðar verðlags- og gjaldskrárhækkanir. Þessar hækkanir ganga þvert gegn því sem kjarasamningurinn snýst um. Verkalýðshreyfingin beitti sér af skynsemi við kjarasamningagerðina og við gerum þá kröfu að fyrirtækin í landinu, og stjórnvöld, geri slíkt hið sama og haldi aftur af verðhækkunum. Launahækkanir í þessum samningi eru ekki forsenda fyrir hækkun á neysluvörum eða hækkun á gjaldskrám hins opinbera. Þær eru innan þess ramma sem samningsaðilar komu sér saman um og það er skýlaus krafa okkar að hækkanir verði dregnar til baka.

Umfjöllunin gefur okkur hins vegar tækifæri til að beita okkur og veita atvinnulífinu það aðhald sem þörf er á. Við munum fylgjast grannt með þróun verðlags fyrirtækja og stofnana og hiklaust beita þá þrýstingi sem ætla að ganga úr skaftinu. Ég hvet alla landsmenn til að taka þátt í þessu með okkur, sameiginlegt átak þarf til.

Við verðum að leggja sameiginlega til atlögu við verðbólguna, að öðrum kosti missum við út úr höndum okkar tækifæri til að skapa varanlegan stöðugleika og þá kaupmáttaraukningu sem við gerum öll kröfu um. Ég hvet því alla félagsmenn VR til að taka þátt í þessari vegferð með okkur og samþykkja samninginn í komandi atkvæðagreiðslu.




Skoðun

Sjá meira


×