Lífið

Dagur í lífi Aldísar ljósmyndara

Ritstjórn Lífsins skrifar
Aldís Pálsdóttir býr á Akranesi og er svo heppin að vera sjálfstætt starfandi.

Hún segist gjarnan vera með milljón verkefni á verkefnalistanum sínum og þurfi því að skipuleggja dagana einstaklega vel.

„Dagurinn einkenndist af tímapressu en ég þurfti að fara til Reykjavíkur á fund og ætlaði að nýta ferðina og kaupa afmælisgjöf handa bóndanum mínum.

Svo ætlaði ég að koma við í Nýherja og skoða Canon-myndavél sem mig langar í. Fara með krakkatölvuna í viðgerð.

Koma við í Hagkaup og skila einum íþróttatoppi. Ég ætla mér iðulega helst til of mikið í einu en það tekst misvel. Sjáum hvernig dagurinn fór.“

08.00-08.30

Fer á fætur og stekk í 10 mínútna sturtu.

Hita svo vatn í kaffið og flóa mjólkina. Ýti við liðinu.

Fáir rumska, kveiki á útvarpinu, stilli það hátt og smyr nesti fyrir skólastelpuna. Finn til fötin sem krakkarnir eiga að klæðast í dag.

Borða eitt avókadó. Í dag er ég ánægð með að muna eftir því að fá mér morgunmat. Ég gleymi því yfirleitt. 

10.00-10.15

Skólastelpan komin í skólann og sonurinn á leikskóla. Skila bóndanum í Keldnaholt.

Fundur með kúnna, Sunneva Design.

Sigríður Vigfúsdóttir klæðskeri hannar mokkakápur og mokkafylgihluti.

Við fundum í tvo tíma og ég ákveð þá að kíkja aðeins á þá staði sem hafa komið upp sem hugmyndir fyrir tökurnar. 

12.30

Ég tek bensín á leið út á Bláfjallaveg. Umhverfið er dásamlegt við Bláfjallaveg.

Allt hvítt af snjó en FÁRÁNLEGA KALT og hvasst.

Ég læt mig hafa það í smá stund á meðan ég smelli af nokkrum myndum þarna í allar áttir og hrökklast svo inn í bílinn aftur og bruna til baka.

13.10

Ég er komin á hinn tökustaðinn og þarf að fá leyfi fyrir myndatöku. Ég kem inn á skrifstofuna og mæti eintómum almennilegheitum.

Þarna má ég mynda.

Ég kanna aðstæður örlitla stund og enda rannsóknarvinnuna því ég þarf að nýta tímann vel og kaupa afmælisgjöfina.

13.50

Ég er komin upp í Nýherja. Canon gerir vel við stelpuna sína og ég skoða myndavél sem mig langar að prófa. Canon G1X eða Canon G16.

Kontaktaðilinn minn er ekki við svo ég skoða bara vélarnar og spái og spekúlera. G1X er fallegri vél, ég held ég velji hana.

14.45

Ég orðin óþreyjufull, þarf að kaupa afmælisgjöfina en samt fara af stað til baka kl. 15.

Komin í JÖR. Þar er alls konar fínt dót. Sé strax vesti sem ég myndi vilja kaupa handa bóndanum mínum. Þarf að einbeita mér að halda athyglinni frá dömudeildinni.

Er orðin mjög svöng og uppgötva að ég er bara búin að borða eitt avókadó. Hefði viljað kíkja líka í Suit-búðina á Skólavörðustígnum og Kormák og Skjöld.

Keyri burt án þess að kaupa afmælisgjöf. Ákveð að kaupa hana undir minni pressu þó svo að mig langi ógeðslega mikið í þetta vesti.

17.00

Mætt á Akranes.

Á meðan dóttirin er í fimleikum leggjum við bílnum út við fjöruborðið og dáumst að fjöllunum í kringum okkur. Fallega Hafnarfjallið, hljóðið í öldunni og kaldur gustur í allar áttir.

Í dag er bjartur dagur og ég sé allt Snæfellsnesið og Snæfellsjökulinn. Það eru forréttindi að geta verið hér á milli stríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.