Lífið

Unglingapartí fer úr böndunum

Gríma naut þess að semja verkið með leikurum skólans.
Gríma naut þess að semja verkið með leikurum skólans. Vísir/Valli
„Leikfélagsstjórnin kom til mín og vildi gera eitthvað um unglingapartí sem fer úr böndunum. Það var grunnhugmyndin sem við unnum með og er leikritið frumsamið af mér og hópnum,“ segir leiklistarneminn Gríma Kristjánsdóttir. Hún leikstýrir sýningunni Batman in a box sem leikfélag Fjölbrautaskólans í Breiðholti setur upp.

„Karaktersköpunin kemur algjörlega frá leikurunum og leikritið er skemmtilegt og fyndið þó vinnan hafi leitt okkur inn á dramatískari slóðir. Mér fannst mjög spennandi að gera eitthvað með nemendunum sem þau ættu sjálf,“ bætir Gríma við.

Aðspurð um nafn leikritsins segir hún það vísa í eiturlyf.

„Götunafn á e-pillum er Batman og þau eru sem sagt með Batman í boxi í leikritinu,“ segir Gríma. Hún segir undirliggjandi boðskap í verkinu þó það sé ekki hádramatískt.

„Boðskapurinn er í raun að maður kemst ekki upp með hvað sem er og gjörðir okkar hafa afleiðingar.“

Gríma er búin með eitt ár í leiklistarskólanum CISPA í Kaupmannahöfn en tók sér barneignarleyfi í ár og fer aftur út í haust til að klára þau tvö ár sem hún á eftir. Hún hefur talsverða reynslu í leiklistarbransanum og hefur meðal annars unnið mikið með leikkonunni Margréti Vilhjálmsdóttur. Þá var hún ein af þeim sem stofnuðu leikhúsið Norðurpólinn á Seltjarnarnesi.

Tvær sýningar eru eftir af Batman in a box, þann 21. og 22. mars næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.