Lífið

Halló Newman! - Seinfeld-leikari sprelllifandi þrátt fyrir orðróm um annað

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Knight er enn í fullu fjöri.
Knight er enn í fullu fjöri. vísir/getty
Bandaríski leikarinn Wayne Knight er enn á lífi þrátt fyrir að um helgina hafi verið fluttar fréttir af dauða hans. Hann var sagður hafa dáið í bílslysi ásamt tveimur öðrum á laugardag.

„Sum ykkar verða fegin að heyra þetta, önnur verða fyrir vonbrigðum, en ég er lifandi og við góða heilsu,“ tísti leikarinn á Twitter-síðu sinni í gær.

Orðrómurinn fékk byr undir báða vængi þegar frétt um hið meinta andlát birtist á slúðurvefnum TMZ Today. Í kjölfarið hófust notendur Twitter handa við að votta leikaranum virðingu sína.

Knight er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem bréfberinn illgjarni Newman í sjónvarpsþáttunum Seinfeld. Þá lék hann í gamanþáttunum 3rd Rock From the Sun auk þess sem persóna hans í Júragarðinum var sú sem hleypti öllu í bál og brand.

Leikarinn er alls ekki sá fyrsti sem lendir í því að þurfa að leiðrétta eigin andlátsfregnir. Frægastur er rithöfundurinn Mark Twain sem sagður var látinn árið 1897. „Fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar,“ var svar rithöfundarins við kjaftasögunum og hafa margir gert orð hans að sínum eftir það.

Rennt verður yfir frægustu tilfelli ótímabærra andlátsfregna í Fréttablaðinu á morgun.

Knight er þekktastur fyrir túlkun sína á Newman, erkióvini Seinfelds í samnefndum sjónvarpsþáttum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.