Skoðun

Skógarganga meðlagsgreiðenda

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar
Frá því að Samtök meðlagsgreiðenda voru stofnuð á vormánuðum 2012 hafa komið fram á sjónarsviðið tölur og upplýsingar sem lýsa hryllilegri stöðu meðlagsgreiðenda og annarra umgengnisforeldra í okkar litla samfélagi.

Árið 2012 lét Innheimtustofnun gera könnun á fjölda meðlagsgreiðenda á vanskilaskrá og kom í ljós að 47% þjóðfélagshópsins voru í alvarlegum vanskilum. Þar af voru 53% einstæðra meðlagsgreiðenda í alvarlegum vanskilum og voru 57% allra kvenna sem greiða meðlög á vanskilaskrá. Meginreglan er því að ef konur borga meðlög, þá verða þær tæknilega gjaldþrota. Þær konur sem standa í skilum eru undantekning frá meginreglunni.

Samkvæmt lánaskrá Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir árið 2012 luku um 1300 einstæðir foreldrar lánshæfu námi, eða um 10% þjóðfélagshópsins, á meðan um 230 meðlagsgreiðendur luku námi á sama tímabili. Þar af voru um 190 einstæðir meðlagsgreiðendur. Ætla má að drjúgur hluti þessara meðlagsgreiðenda hafi verið í lánshæfu iðnnámi.

Samtökin fengu einnig upplýsingar frá Tryggingastofnun þess efnis að yfir 1300 meðlagsgreiðendur eru með fulla örorku eða endurhæfingarlífeyri eða um 11% þjóðfélagshópsins. Voru tölurnar fundnar með því að telja fjölda þeirra meðlagsgreiðenda sem sæta skuldajöfnun barnalífeyris upp í meðlagskröfur.

Að framansögðu má ljóst vera að fjárhagsleg og félagsleg staða meðlagsgreiðenda er hryllileg, sama hvernig á það er litið. Orsakavaldurinn er fyrst og fremst löggjafinn og stjórnvöld, sem hafa í gegnum tíðina gefið út veiðileyfi á meðlagsgreiðendur og komið fram við þá eins og dæmda sakamenn. Þannig hafa velferðarbótum og útborguðum launum verið skuldajafnað við meðlagsskuldir, og jafnvel barnabætur sem ætlaðar eru fyrir barn í nýju hjónabandi.

Umboðsmaður Alþingis hefur margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að viðskipti Innheimtustofnunar standist ekki reglur stjórnsýslulaga. Þá þegar meðlagsgreiðendur beygja sig í duftið og leita á náðir félagsþjónustu sveitarfélaga, er þeim sagt að hundskast burt, því meðlög eru færð til bókar sem hluti af þeirra ráðstöfunartekjum og er svo álitið, að þeir hafi ekki börn á framfæri í gegnum umgengni og þurfi engu að kosta til.

Mannfyrirlitningin og andstyggðin er allstaðar í samfélaginu.

Samtökin hafa vakið athygli á því að umgengnisforeldrar eru hvergi skráðir í bókum hins opinbera, og telja mikilvægt að stjórnvöld ráðist í lagabreytingar þannig að Þjóðskrá Íslands geti skráð alla umgengnisforeldra í þjóðskrá, rétt eins og lögheimilisforeldra. Fyrr verður ekki hægt að fella umengnisforeldra inn í hagskýrslugerð eða gera háskólarannsóknir um fjárhagslega stöðu þjóðfélagshópsins.

Á færibandi koma rannsóknir frá Háskóla Íslands og opinberum stofnunum sem sýna bága stöðu einstæðra foreldra, sem eru um 18% á vanskilaskrá. Hvergi kemur fram staða umgengnisforeldra þar sem þeir eru álitnir barnslausir einstæðingar. Mest svíður undan þögn fræðasamfélagsins um málefnið.

Hvar er starfsheiður fræðimanna? Meðlagsgreiðendur hafa einnig ábyrgð. Þeir þurfa að sinna sínum uppeldisskyldum og bera ábyrgð á sínu lífi að öðru leyti. Það verkefni er mörgum ómögulegt, þar sem staða þeirra gagnvart velferðarkerfinu er svo til engin. Þeir eru álitnir barnslausir einstæðingar og fá velferðarbætur í samræmi við það, auk þess að greiða meðlög sem geta eftir atvikum verið tvöföld.

Þótt verkefni meðlagsgreiðenda séu ærin, gerum við ekki lítið úr því að þeir verða að standa sig betur í því að styðja við bak þeim félagasamtökum sem berjast fyrir þeirra hagsmunum. Ef þú ert meðlagsgreiðandi eða aðstandandi, og ert ekki í Samtökum meðlagsgreiðenda eða Félagi um foreldrajafnrétti, ert þú ekki að axla ábyrgð í þinni lífskjarabaráttu!

Meðlagsgreiðendur geta tekið femínista sér til fyrirmyndar þegar kemur að samheldni og samstöðu í baráttunni fyrir bættum lífskjörum. Auðvelt er að skrá sig í samtökin á heimasíðum þessara samtaka.

Eins og hér hefur verið rakið er ljóst að ábyrgð stjórnvalda er mikil, og standa gild rök um að þau þurfi að mæta meðlagsgreiðendum með sérstökum hætti með valdeflingu og þjónustu að leiðarljósi.

Til þess þurfa stjórnvöld félagasamtök til að þjónusta þjóðfélagshópinn. Samtök meðlagsgreiðneda hafa ítrekað óskað eftir stuðningi stjórnvalda til að kosta stöðugildi fyrir samtökin, til að veita meðlagsgreiðendum ráðgjöf, miðla málum við stjórnvöld og koma málum í réttar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar og eftir atvikum stefna þeim til Umboðsmanns Alþingis eða dómstóla.

Við höfum ekki fengið svör, og þurfa stjórnvöld að minnast ábyrgðar sinnar gagnvart því hvernig fyrir meðlagsgreiðendum er komið. Skógargöngunni verður að ljúka!

Á aðalfundi Samtaka meðlagsgreiðenda hinn 30. október, steig ég til hliðar fyrir nýrri stjórn og nýjum formanni samtakanna. Var ánægulegt að sjá á þeim fundi, að meðlagsgreiðendur hafa þrótt og slagkraft til að halda baráttunni áfram, þar til réttarbætur nást. Óska ég nýrri stjórn og nýjum formanni gæfu og gengis á komandi kjörári.




Skoðun

Sjá meira


×