Að sögn Jóns Bjartmarz er ekki að sinni gert ráð fyrir fjárveitingum til kaupa á vopnunum.
„Það breytir því ekki að þörf lögreglunnar á vopnum er óbreytt og hefur í reynd aukist og er embættið að undirbúa greinargerð til ráðherra um kaup á búnaði, þar á meðal vopnum. Svari Norðmenn bréfi ríkislögreglustjóra um útvegun á vopnum og öðrum búnaði sem spurt var um í bréfinu verður það skoðað í ljósi svara þeirra,“ segir Jón í svari til Fréttablaðsins.

„Landhelgisgæslan hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig endurnýjun á vopnakostinum verður háttað. Það er verkefni sem bíður betri tíma og er ekki talið á meðal forgangsmála í rekstrinum. Önnur verkefni, svo sem endurnýjun björgunarþyrlna og bættur rekstrargrundvöllur skipa, eru mun brýnni,“ segir Hrafnhildur.
Að sögn Hrafnhildar flugu Norðmenn með vopnin hingað til lands án kostnaðar fyrir Landhelgisgæsluna og enginn kostnaður sé vegna geymslu þeirra. „Verður haft samráð við þá um flutning vopnanna til Noregs við fyrstu hentugleika,“ segir hún.

„Raunar er nær öll vopnaeign Landhelgisgæslunnar, 90 prósent, gjafir frá nágrannaþjóðunum sem tekin hafa verið úr notkun hjá þeim. Nú síðast árið 2013 bárust 10 vopn að gjöf frá Norðmönnum. Gert var ráð fyrir að það sama ætti við í þessu tilfelli,“ segir Hrafnhildur.
Aðspurð hvort Norðmenn geri nú kröfu um greiðslu vegna þeirra vopna sem áður voru talin gjafir svarar Hrafnhildur: „Nei, það hefur ekki komið til tals.“
Tilfelli þar sem sérsveitin hefur vopnast 2007-2013
Ár Tilvik
2007 53
2008 48
2009 68
2010 63
2011 63
2012 72
2013 83
Heimild: Ríkislögreglustjóri.