Lífið

Fjögur ár frá andláti Corey Haim

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Corey var afar vinsæll meðal kvenna á árum áður.
Corey var afar vinsæll meðal kvenna á árum áður. Vísir/Getty
Leikarinn Corey Haim lést úr lungnabólgu á þessum degi árið 2010, aðeins 38 ára að aldri.

Corey hóf leiklistarferilinn aðeins tíu ára gamall þegar hann lék Larry í kanadísku seríunni The Edison Twins sem var í loftinu frá 1982 til 1986.

Árið 1986 landaði hann hlutverki í kvikmyndinni Lucas þar sem hann lék á móti Charlie Sheen og Winona Ryder. Þaðan í frá var leiðin greið á leiklistarbrautinni og lék hann í myndum á borð við The Lost Boys, License to Drive og Anything for Love.

Hann var mikill hjartaknúsari og um tíma fékk hann yfir tvö þúsund aðdáendabréf á viku frá æstum unglingsstúlkum.

Lífið lék þó ekki við Corey í einkalífinu og ánetjaðist hann áfengi og fíkniefnum snemma á ferlinum. Hann smakkaði fyrst áfengi á setti Lucas árið 1985 og prófaði marijúana ári seinna. Það leiddi til þess að hann notaði kókaín í eitt og hálft ár og síðar krakk.

Corey reyndi margoft að losa sig við vímuefnadjöfulinn en lítið gekk. Þegar lögregla fór í gegnum eigur hans eftir andlátið fann hún ýmis lyf á heimili hans sem leikarinn hafði fengið frá mismunandi læknum, þar á meðal Valíum, Víkódín og Xanax. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.