Lífið

Lítur allt út fyrir að Ágústa Eva verði Lína um helgina

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ágústa Eva sem Lína.
Ágústa Eva sem Lína.
„Hún var í læknisskoðun í morgun og það lítur allt rosalega vel út. Allar bólgur eru farnar þannig að það lítur allt út fyrir að hún muni sýna á morgun,“ segir Jón Þorgeir Kristjánsson, markaðsstjóri Borgarleikhússins.

Aflýsa þurfti sýningum af Línu Langsokk síðustu helgi þar sem aðalleikkonan, Ágústa Eva Erlendsdóttir, fékk sýkingu í raddböndin og missti röddina. Því var gripið til þess ráðs að æfa leikkonuna Þórunni Örnu Kristjánsdóttur í hlutverkið svo ekki þyrfti að aflýsa fleiri sýningum en Lína verður sýnd fjórum sinnum um helgina í Borgarleikhúsinu.

„Það er fullt af fólki sem hefur eftirlit með henni og verðum við með raddþjálfa og lækna á hliðarlínunni á morgun ef eitthvað kemur upp á. Þórunn er búin að æfa hlutverkið alla daga í þessari viku og hún er tilbúin að hlaupa í skarðið ef eitthvað gerist. Vonandi verður þetta samt allt í góðu,“ segir Jón Þorgeir.

Jón Þorgeir vill ítreka að engum fleiri sýningum af Línu langsokk verði aflýst og að nánast allir þeir sem áttu miða á sýninguna síðustu helgi hafi fengið miða á aðrar sýningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.