Skoðun

Fyrirkomulag á skipun sendiherra á Norðurlöndunum

Svala Guðmundsdóttir skrifar
Nýlega lagði Guðmundur Steingrímsson fram fyrirspurn á Alþingi til utanríkisráðherra um skipun sendiherra í íslensku utanríkisþjónustunni. Spyr Guðmundur um þær faglegu kröfur sem lagðar eru til grundvallar við skipun sendiherra, hvernig faglegu mati á hæfi sé háttað við slíka skipun, og hvernig ferlið sé við skipun sendiherra.

Í ljósi fyrirspurnar Guðmundar, er forvitnilegt að skoða með hvaða hætti nágranna- og vinaþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum standa að skipun sendiherra. Einnig hvort þar séu fyrrverandi stjórnmálamenn eða aðrir aðilar utan utanríkisþjónustunnar skipaðir í störf sendiherra. Fylgja hér á eftir upplýsingar sem fengust frá mannauðsdeildum utanríkisráðuneyta Danmerkur, Finnlands og Noregs um þau mál.

Danmörk

Í Danmörku eru hvorki skipaðir fyrrverandi stjórnmálamenn eða aðrir utanaðkomandi aðilar í stöður sendiherra. Allar sendiherrastöður eru því skipaðar af embættismönum utanríkisráðuneytisins.

Þegar stöður sendiherra losna, eru þær auglýstar innan utanríkisráðuneytisins og gefst starfsmönum kostur á að sækja um. Fara umsækjendur í viðtal, og þá er stuðst við svokallað 360 gráðu mat, sem er frammistöðumatsaðferð sem byggir m.a. á því að umsækjandi hefur verið metinn af undir- og yfirmönnum sínum. Að loknu mati á umsækjendum, gerir yfirstjórn ráðuneytisins tillögu til utanríkisráðherra um hverjir skulu skipaðir sendiherrar. Utanríkisráðherra leggur síðan tillögu um skipun sendiherra til Danadrottningar, sem staðfestir skipunina.

Finnland

Á síðustu tuttugu árum hafa verið skipaðir þrír fyrrverandi stjórnmálamenn í stöður sendiherra í Finnlandi. Í öllum tilvikum hefur verið um fyrrverandi utanríkisráðherra að ræða. Þess má geta að flutningsskyldir starfsmenn finnska utanríkisráðuneytisins eru tæplega 1.200.

Eins og í Danmörku, eru stöður sendiherra auglýstar innan finnska utanríkisráðuneytisins og gefst embættismönum ráðuneytisins kostur á því að sækja um. Sérstök framgangsnefnd innan ráðuneytisins fer yfir umsóknir, tekur viðtal við umsækjendur og styðst meðal annars við 360 gráðu mat, eins og innan dönsku utanríkisþjónustunnar.

Í framhaldinu gerir framgangsnefndin tillögu til utanríkisráðherra um hverjir skulu skipaðir sendiherrar. Utanríkisráðherrann ber síðan upp tillögu í ríkisstjórn um skipun sendiherra, og leggur ríkisstjórnin samþykki sitt fyrir tillögunni fyrir forseta landsins til staðfestingar. Eftir að sendiherra hefur fengið skipun, fær hann sérstaka stjórnendaþjálfun.

Noregur

Í Noregi hefur í undantekningartilvikum verið skipað í stöður sendiherrar úr röðum fyrrverandi stjórnmálamanna. Í enn færri tilvikum hafa sendiherrar verið skipaðir úr röðum aðila í viðskiptalífinu eða annars staðar utan utanríkisþjónustunnar.

Eins og í Danmörku og Finnlandi, eru stöður sendiherra auglýstar innan utanríkisráðuneytisins. Embættismönnum ráðuneytisins gefst kostur á að sækja um og eru umsækjendur teknir í viðtal. Eru stöðurnar venjulega auglýstar í september ár hvert fyrir stöður sem losna í ágúst árið eftir.

Eins og sjá má hér að ofan, eru sendiherrar í Danmörku, Finnlandi og Noregi alls ekki eða einungis í undantekningartilvikum skipaðir úr röðum fyrrverandi stjórnmálamanna. Þá eru heldur ekki skipaðir aðrir aðilar utan utanríkisþjónustunnar í slíkar stöður. Í öllum tilvikum eru stöður sendiherra auglýstar innan utanríkisráðuneytisins, þar sem embættismönum ráðuneytisins gefst kostur á því að sækja um. Í stöðurnar er síðan skipað eftir að faglegt mat hefur farið fram á árangri og frammistöðu umsækjenda í starfi.

Ísland

Hér á landi er hins vegar allt annar háttur á. Á fréttavef Ríkisútvarpsins þann 30. september sl. kemur fram að átta fyrrverandi formenn stjórnmálaflokka, auk annarra stjórnmálamanna, hafi verið skipaðir í störf sendiherra hér á landi á undanförnum árum.

Ísland sker sig því algjörlega úr hinum Norðurlöndunum þegar kemur að pólitískum skipunum í stöður sendiherra. Hvernig að öðru leyti er staðið að þeim skipunum hér á landi verður fróðlegt að lesa um þegar svar utanríkisráðherra berst við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×