Innlent

Sport sem getur verið hættulegt

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Verði óhapp við háspennumannvirki á að hringja í 112 eða Landsnet í síma 563-9401.
Verði óhapp við háspennumannvirki á að hringja í 112 eða Landsnet í síma 563-9401. Nordicphotos/Getty
Allir sem stunda svif- og skíðadrekasport þurfa að gera sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja því að fara of nálægt háspennumannvirkjum.

Þetta kemur fram í viðvörun Landsnets vegna vaxandi notkunar svokallaðra skíðadreka, sem notaðir eru til að draga skíða- og brettafólk yfir snævi þakta grund.

„Mikil hætta skapast til dæmis ef tengilína svif- eða skíðadreka flækist í háspennulínum. Kann þá rafstraumur að hlaupa um tengilínuna, gegnum þann sem við hana er festur og miklar líkur eru á að slíkt valdi dauða viðkomandi,“ segir í umfjöllun á vef Landsnets.

„Hér er því um mikilvægt öryggismál að ræða fyrir alla sem stunda þessa íþrótt og brýnt að þeir velji sér helst leiðir þar sem ekki þarf að þvera háspennulínur.“

Gerist þess hins vegar þörf áréttar Landsnet að fella þurfi dreka sína tímanlega. „Og er eindregið mælt með því að nota þá ekki í minna en 100 metra fjarlægð frá háspennulínum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×