Skoðun

Áhugalausar konur

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Utanríkisráðherrar telja margir að fyrrverandi ráðherrar séu góður kostur þegar skipað er í sendiherrastöður. Þeir virðast líka telja að körlum sé betur treystandi til starfans en konum.

Mótsagnarkennd svör ráðherra

Nýlega skipaði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tvo nýja sendiherra; einn fyrrverandi ráðherra og einn núverandi alþingismann. Karlkyns sendiherrar eru því orðnir 28 en konurnar sjö. Þegar ráðherra var spurður út í málið sagði hann annars vegar eitthvað á þá leið að hugsanlega væri starfið þess eðlis að konur sæktu ekki í það og hins vegar að hann hefði þrjú ár til að laga kynjahlutfallið. Ég staldraði við þessi svör, þótti þau merkileg og mótsagnarkennd. Í einu orði segir ráðherra mikilvægt að fjölga konum í utanríkisþjónustunni og hann muni nýta þau þrjú ár sem eftir lifa kjörtímabilsins til laga kynjahlutfallið en í hinu orðinu segir hann að konur sæki ekki í þessi störf.

Konur ekki áhugalausari

Hvernig ætlar ráðherra að fjölga konum í sendiherrastöðum ef hann finnur engar hæfar konur sem treysta sér í starfið? Hann er þegar búinn að skipa fjóra karla á einu ári, að eigin sögn af því að konur draga lappirnar. Hvað mun breytast á næstu þremur árum? Þá skil ég ekki hvernig hægt er að draga þá ályktun að konur séu áhugalausari um störfin en karlar. Voru margar konur í utanríkisráðuneytinu sem gáfu verkefnið frá sér? Sé svo, voru þá aðrar hæfar konur sem haft var samband við líka áhugalausar? Er hægt að fá lista yfir þessar áhugalausu konur sem treysta sér ekki í þessi annars eftirsóttu störf?

Hefði átt að viðurkenna

Ég held að skortur á konum í utanríkisþjónustunni haldi ekki vöku fyrir utanríkisráðherra og að hann hafi í sjálfu sér ekkert verið að hugsa út í kynjahlutföllin fyrr en gagnrýnin kom fram. Það hefði því verið hreinlegra ef ráðherra hefði bara viðurkennt það. Að láta að því liggja árið 2014 að íslenskar konur sækist ekki eftir sendiherrastöðum er nefnilega ekkert annað en móðgun.




Skoðun

Sjá meira


×