Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, meiddist illa á ökkla í sigrinum á Bretum í kvöld og það er óvíst hversu alvarleg meiðsli hans eru.
Þetta er það eina neikvæða við annars frábært íslenskt körfuboltakvöld í London.
Hlynur meiddist á lokamínútum leiksins og það vissu allir að þetta væri alvarlegt því þessi mikli víkingur hefði aldrei yfirgefið völlinn á þessari stundu nema af hann væri mikið meiddur. Leikurinn var í járnum en félögum hans í liðinu tókst sem betur fer að landa sigri án hans.
Félagar Hlyns í íslenska liðinu báru hann á milli sín á leiðinni upp á hótel en hann gat ekki stigið í fótinn. Það verður að teljast ólíklegt að Hlynur geti spilað leikinn á móti Bosníu í næstu viku ef meiðslin eru eins alvarleg og þau litu út fyrir að vera.
Hlynur var búinn að gera sitt í leiknum en hann var með 7 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar þar af var ein stoðsendingin þar sem hann hafði rétt áður skollið í gólfinu. 7 af 13 fráköstum Hlyns voru í sókn og mörg þeirra gáfu mikilvægar körfur.
Vonandi berast góðar fréttir af Hlyn á morgun en íslenska liðið má illa við að missa þennan frábæra fyrirliða sinn.
Jón Arnór og Pavel báru Hlyn á milli sín - meiddist illa í leiknum

Tengdar fréttir

Sjáðu sigurræðu þjálfaranna í Koparkassanum
Craig Pedersen, Arnar Guðjónsson og Finn Frey Stefánsson ræða við strákana okkar eftir sigurinn á Bretum.

Leik lokið: Bretland - Ísland 69-71 | Strákarnir eru á leiðinni á EM
Íslenska körfuboltalandsliðið er á leiðinni á EM eftir frábæran 71-69 endurkomusigur á Bretum í Koparkassanum í London í kvöld. Íslenska liðið var tíu stigum undir í hálfleik en gafst ekki upp og tryggði sér sigurinn með stórkostlegum seinni hálfleik.

Jón Arnór kom Pavel á óvart í kvöld: Þvílík frammistaða
Pavel Ermolinskij í sjöunda himnir eftir sigurinn í Koparkassanum.

Jón Arnór: Það getur enginn tekið þetta frá mér
Tók slaginn með landsliðinu í Koparkassanum og sér ekki eftir því.

Hörður Axel: Getur ekki fundið lið með stærra hjarta
Bakvörðurinn lipri spilaði frábærlega í seinni hálfleik gegn Bretum.

Haukur Helgi: Gaman að geta gert þetta fyrir eldri kynslóðina í liðinu
Ísland setti í gírinn í þriðja leikhluta og vann Bretland.