Lífið

Þrír tilnefndir í fyrsta sinn til Edduverðlauna

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ágúst Örn Wigum
Ágúst Örn Wigum
„Það gaman að fá tilnefningu þó að það séu ekkert sérstaklega margar myndir í pottinum,“ segir hinn 29 ára gamli Davíð Alexander Corno, en hann er tilnefndur í fyrsta sinn til Edduverðlaunanna fyrir klippingu á kvikmyndinni Hross í oss.

Davíð er þó ekki sá eini sem hlýtur sína fyrstu tilnefningu í kvöld því leikararnir Styr Júlíusson sem er 21 árs gamall og Ágúst Örn Wigum, 12 ára, eru báðir tilnefndir sem leikari ársins í aðalhlutverki. Styr fyrir leik sinn í Fölskum fugli og Ágúst Örn fyrir leik sinn í Hvalfirði.

„Ég er mjög þakklátur og þetta kemur skemmtilega á óvart,“ segir Styr spurður út í tilfinninguna. Ágúst Örn er að sama skapi þakklátur. „Það er sigur að fá tilnefningu og bara auka að vinna,“ bætir Agúst Örn við.

Allir stefna þeir á enn frekari frama í leiklist og kvikmyndagerð. „Klippingin er góður skóli fyrir framhaldið held ég,“ segir Davíð en hann langar að fara meira út í handritaskrif og leikstjórn í framtíðinni.

Styr segist ekkert endilega stefna á að fara í Leiklistarskólann en hann þreytti frumraun sína í kvikmyndaleik í Fölskum fugli. „Ég er alltaf að stússast í minni verkefnum með vinum mínum og langar að leggja leiklistina og kvikmyndagerð fyrir mig í framtíðinni. Ég stefni þó ekkert endilega á að fara í Leiklistarskólann,“ segir Styr. Hann nemur sem stendur kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

Þegar Fréttablaðið náði tali af Ágústi Erni var hann á fullu við talsetningar í Stúdíói Sýrlandi. „Ég er að talsetja danska bíómynd en ég hef talsett myndir á borð við Flóttinn frá jörðu, Dino Time og þættina Stella og Steinn,“ útskýrir Ágúst Örn. Hann bætir við að hann hafi fengið talsverða athygli eftir að hafa leikið í Hvalfirði. Hann lék í leikritunum Oliver Twist og Macbeth. „Ég er að leika í Óvitum sem stendur.“

Davíð segir að nafn sitt hafi farið flakk eftir að Hross í oss kom út. „Mér var boðin vinna strax eftir að myndin kom út,“ segir Davíð sem vann að myndinni Sumarbörn í sumar. Þá er hann að vinna í eigin handriti og minni verkefnum hér og þar. „Á milli stóru verkefnanna eru menn mikið að vinna í sínu eigin efni,“ bætir Davíð við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.