Lífið

Læknisfræðin algjör ástríða

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Elmar Johnson
Elmar Johnson
„Ég stefni á að halda aðeins uppá daginn og fara svo beint aftur í vinnuna,“ segir Elmar Johnson, framkvæmdastjóri Guide to Iceland. Hann brautskráist með embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands í dag.

„Nú er ég búinn með bóklega partinn og á eftir eitt ár í verknámi áður en ég útskrifast sem löggildur læknir. Það ár skiptist niður í viðveru á Landspítalanum annars vegar og hins vegar á heilsugæslu,“ segir Elmar.

Hann ætlar ekki að ljúka verknáminu í beinu framhaldi þar sem hann hefur í nægu að snúast með fyrirtæki sitt.

„Það er erfitt að gera bæði. Ég vil nýta orkuna í að koma á koppinn fyrirtækinu sem ég stofnaði, ásamt öðrum, í janúar á síðasta ári. Við bjuggum til fyrsta miðlæga markaðstorgið í íslenskri ferðaþjónustu þar sem ferðamenn geta fundið alla þá afþreyingu og vöru sem í boði er á landinu á einum stað. Það hefur gengið mjög vel og hlutum við til dæmis Nexpo-verðlaunin í síðustu viku sem áhrifamesta fyrirtækið á samfélagsmiðlum,“ segir Elmar.

Margir þekkja Elmar sem fyrirsætu en hann hefur nú sagt skilið við þann heim.

„Ég er raunverulega búinn að leggja það á hilluna. Ég eiginlega óx upp úr þessu. Ég fékk rosalega flott tækifæri og það var gaman á sínum tíma að ferðast um og sjá heimshluta sem ég hefði annars ekki séð. En um leið og ég byrjaði í námi og með fyrirtækið breyttist forgangsröðunin. Ég var búinn að upplifa allt sem ég vildi upplifa í fyrirsætuheiminum og skildi sáttur við hann. Núna legg ég meiri áherslu á að vera útskrifaður læknir og frumkvöðull.“

Aðspurður um framtíðina segist Elmar ekki ætla að slá slöku við.

„Fyrirtækið mitt og læknisfræðin eru algjör ástríða og draumurinn er að sinna báðu í framtíðinni. Ferðaiðnaðurinn býður uppá gríðarlega mikið af spennandi tækifærum sem ég ætla svo að tvinna saman við starf læknisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.