Skoðun

Þjóðaratkvæði

Þorbjörn Broddason skrifar
„... það er ákveðinn ómöguleiki hér til staðar,

sem ekki er hægt að komast í kringum.

(Bjarni Benediktsson, 19. febrúar 2014)



Mér eru málefni Evrópu og þar með Evrópusambandsins hugleikin líkt og mörgum öðrum. Ég fagnaði umsókn Íslands um inngöngu og var bjartsýnn á að samningaviðræðum mundi ljúka með niðurstöðu, sem ég gæti tekið afstöðu til í þjóðaratkvæði. Ég er með öðrum orðum viðræðusinni samkvæmt skilningi Þorsteins Pálssonar (sjá pistil á visir.is frá 18. fyrra mánaðar). Þegar viðræður hafa verið leiddar til lykta mun ég breytast í annað tveggja, aðildarsinna eða aðildarandstæðing. Fyrr ekki.

Þess vegna komu mjög flatt upp á mig þau orð formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann mælti á Alþingi 19. febrúar, að það væri að koma æ betur í ljós að eina leiðin til þess að „virkja vilja þjóðarinnar“ væri að gera það „með þjóðaratkvæðagreiðslu um viljann til aðganga í Evrópusambandið…“ Formaðurinn býður mér sem sagt og þeim tvö hundruð og fjörutíu þúsund öðrum, sem mundu vera á kjörskrá í þjóðaratkvæði, að kjósa um spurningu, sem ekki er unnt að svara fyrr en að loknum viðræðum, í stað þess að bjóða okkur að svara hinni skýru spurningu hvort við viljum halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið eða slíta þeim.

Því hefur heyrst fleygt að Bjarni Benediktsson sé vaxandi stjórnmálamaður. Ekki treysti ég mér til að dæma um það en vera má að þessi skoðun sé afstæð og standi í sambandi við nærtækan samanburð. Þegar ég heyrði ofangreind ummæli formannsins í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 20. febrúar varð mér hins vegar ljóst að Evrópusambandsumræðan hefur orðið honum að tilefni til að lyfta kunnuglegu merki ósvífninnar á ný í slíkar hæðir að eldur stoltsins hlýtur að loga í æðum eins fyrirrennara hans. Reyndar gat hvarflað að hrekklausum útvarpshlustanda að texti formannsins hefði hreinlega verið saminn uppi í Hádegismóum.



Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×