Lífið

Náði þremur bókum á topp 15

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Gunnar hefur aldrei náð þremur bókum inn á metsölulistann áður.
Gunnar hefur aldrei náð þremur bókum inn á metsölulistann áður. Fréttablaðið/Anton Brink
„Mér finnst þetta alveg fáránlegt. Ég hafði aldrei pælt í því að þetta gæti gerst. Ég var svo fókúseraður á nýjustu bókina, Rangstæður í Reykjavík, að ég bjóst ekki við þessu,“ segir leikarinn, leikstjórinn og rithöfundurinn Gunnar Helgason. Hann á þrjár bækur á glænýjum metsölulista Eymundsson yfir topp fimmtán barnabækur á Íslandi. Í tólfta sæti er Aukaspyrna á Akureyri, Víti í Vestmannaeyjum er í því sjöunda og í fjórða sæti er Rangstæður í Reykjavík. Bækurnar þrjár eru sería af knattspyrnubókum sem Gunnar skrifaði en hann skrifar nú síðustu bókina í seríunni - Gula spjaldið í Gautaborg.

„Hún gerist á Gothia Cup í Svíþjóð, stærsta fótboltamóti fyrir börn og unglinga í Evrópu. Ég fór þangað síðasta sumar til að viða að mér efni og bókin kemur út í haust,“ segir Gunnar.

„Ég held að nýir lesendur sem hafa fengið Rangstæður í Reykjavík í jólagjöf hafi viljað lesa fyrri bækurnar. Fyrsta bókin, Víti í Vestmannaeyjum, seldist í tæplega tvö þúsund eintökum, næsta bók seldist í tæplega þrjú þúsund eintökum en Rangstæður í Reykjavík í um það bil sex þúsund einstökum. Stökkið í sölu er rosalegt,“ segir Gunnar um velgengni eldri bókanna á metsölulistanum.

Gunnar er einnig með handrit að sjónvarpsþáttum í vinnslu sem byggðir eru á Víti í Vestmannaeyjum en framleiðslufyrirtækið Sagafilm mun framleiða þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.