Lífið

Passíusálmar frumfluttir í heild

Ugla Egilsdóttir skrifar
Megas með Hilmari Erni Agnarssyni. Hilmar Örn er organisti í Grafarvogskirkju.
Megas með Hilmari Erni Agnarssyni. Hilmar Örn er organisti í Grafarvogskirkju. MYND/GRAFARVOGSKIRKJA
„Við ætlum að flytja alla Passíusálmana, fimmtíu að tölu,“ segir Hilmar Örn Agnarsson, listrænn stjórnandi á heildarfrumflutningi á Passíusálmunum við lög Megasar í þremur lotum í Grafarvogskirkju um páskana. „Þetta hefur aldrei verið gert áður,“ segir Hilmar Örn. „Megas hefur flutt brot úr þessu, en aldrei allt. Við Megas höfum verið að spila þessa sálma saman í fjórtán ár. Nú fannst okkur við hæfi að taka hvern einasta sálm, þar sem Hallgrímur Pétursson hefði orðið fjögur hundruð ára nú í ár,“ segir Hilmar Örn.

„Þetta er fjörutíu og eins árs gömul músík. Jafngömul syni Megasar, sem er Þórður Magnússon tónskáld. Hann er að útsetja fyrir okkur fyrsta hlutann, sem verður fluttur þriðja apríl í Grafarvogskirkju. Þar verður ungmeyjakór, og kammersveitin Caput. Næstu tónleikar verða svo tíunda apríl. Þá verður önnur nálgun. Hljómsveitin Moses Hightower spilar á þeim tónleikum, og blandar sínum stíl inn í útsetningar ásamt kór Grafarvogskirkju sem heitir Vox populi,“ segir Hilmar Örn.

„Síðustu tónleikarnir eru átjánda apríl, á föstudaginn langa. Þá er það Söngfjelagið sem syngur. Það er sextíu manna kór og rokkhljómsveit sem við köllum Píslarbandið,“ segir Hilmar Örn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.