Lífið

Fjölskylduhrærigrautur á sviðinu

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Hjónin Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson ætla að sameina alla fjölskylduna á Café Rósenberg í kvöld.
Hjónin Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson ætla að sameina alla fjölskylduna á Café Rósenberg í kvöld. Fréttablaðið/Arnþór
„Við mæðgurnar fengum þessa hugmynd er við vorum að troða saman upp á Rósenberg fyrir ekki svo löngu, að það væri gaman að sameina fjölskylduna á sviðinu,“ segir Elín Eyþórsdóttir, tónlistarkonan sem kemur úr ansi þekktri tónlistarfjölskyldu.

Elín skipar danssveitina Sísí Ey ásamt systrum sínum Elísabetu og Sigríði og foreldrar þeirra eru hjónin Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson. Þrátt fyrir að starfa öll í tónlist er sjaldgæft að þau komi öll fram saman á tónleikum. Í kvöld er komið að því og ætlar Eyþór Ingi, yngsti bróðirinn, einnig að vera með en þetta er frumraun hans opinberlega á sviði með fjölskyldunni.

„Hann er 16 ára og hefur einbeitt sér að raftónlist hingað til. Hann er mjög fær og það er aldrei að vita hvaða hljóðfæri hann grípur í á sviðinu.“

Tónleikarnir fara fram á Café Rósenberg í kvöld og er þeirra eigið efni á dagskránni í bland við ábreiður. Elín segir fjölskylduna ekki hafa verið í neinum ströngum æfingabúðum fyrir tónleikana.

„Við erum búin að æfa svona eins og við getum. Svo getur verið að við tökum nokkrar órafmagnaðar útgáfur af lögum okkar í Sísí Ey.“

Það má því búast við miklu stuði frá þessari tónelsku fjölskyldu í kvöld.

Annars er danssveitin Sísí Ey byrjuð að taka upp nýja plötu og segir Elín að næst á dagskrá hjá sveitinni sé að gefa sér tíma til að klára hana.

„Ég veit ekkert hvenær hún kemur út en hálfnað verk þá hafið er.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.