Skoðun

Allt á niðurleið

Sigurður Friðleifsson skrifar
Íslendingar eiga tvær þjóðaríþróttir, glímu og neikvæðni, og dugnaður okkar í báðum þessum greinum er óumdeildur. Þá sjaldan sem jákvæðni er borin á borð fyrir okkur er hún yfirleitt tengd stjórnmálaflokkum eða hagsmunaðilum sem sjálfkrafa þýðir að um helmingur þjóðarinnar setur allar lokur fyrir vit sín og meðtekur ekki skilaboðin hvort sem þau eru rétt eða röng. Hér ætla ég að kynna jákvæðar tölur sem eru engum sérstökum hagsmunaaðilum að þakka heldur fyrst og fremst Íslendingum sjálfum, hvar sem þeir standa í pólitík eða á vinnumarkaði.

Olía hefur lengi keyrt stóran hluta af hagkerfi Íslendinga með tilheyrandi gjaldeyriskostnaði og mengun. Olía hefur ekki einungis neikvæð umhverfisáhrif heldur er hún stór kostnaðarliður í þjóðarbúi sem illa má við gjaldeyristapi. Til lengri tíma er líka ómögulegt að vera háður olíu enda um endanlega auðlind að ræða sem gengur til þurrðar einn daginn. Í umhverfismálum er oft einblínt á það sem miður fer og vonleysið ræður ríkjum en sumt sem er á niðurleið á einmitt að vera á niðurleið og það gildir einmitt um olíunotkun Íslendinga. Á línuritinu sést að olíunotkun á hvern Íslending er á hraðri niðurleið og hefur farið úr rúmlega 2,2 tonnum niður fyrir 1,5 tonn á hvern íbúa. Grafið nær yfir langt tímabil og dekkar bæði hægri og vinstri stjórnir, góðæri og kreppu og hátt og lágt gengi krónu. Með öðrum orðum þá er árangurinn raunverulegur. Í raun er árangurinn að hluta til vanáætlaður þar sem olíunotkun sífjölgandi ferðmanna á Íslandi skrifast að fullu á okkar tölfræðireikning.

Hvað veldur?

Þar sem við Íslendingar erum svo lánsamir að framleiða allt okkar rafmagn og hita með innlendum og kolefnisfríum orkugjöfum þá er olíunotkun landans bundinn við tvo þætti þ.e. sjávarútveg og farartæki. Í sjávarútvegi hefur nýtni fiskiskipa aukist en stóra breytan er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja þar sem olíu hefur verið skipt út fyrir innlenda raforku. Þessi orkuskipti fiskimjölsverksmiðja samsvarar olíunotkun tugþúsunda heimilisbifreiða.

Fjölmargir þættir útskýra svo minnkun á olíunotkun bifreiða. Í fyrsta lagi eru landsmenn nú mun skynsamari í vali og nýjum bifreiðum og eyða nýjir bílar nú 2-4 lítrum minna, á hverja 100 ekna km., en raunin var í kringum aldamótin. Þetta þýðir með öðrum orðum að við komust sömu vegalengdir á miklu færri olíulítrum. Sá gjaldeyrisparnaður sem fylgir nýtnari bílaflota nemur milljörðum króna á ársgrundvelli. Í öðru lagi eru Íslendingar alltaf að verða duglegari að ferðast í strætisvögnum, gangandi, á hjóli eða í samfloti með öðrum. Nú hefur einokun olíunnar í samgöngum einnig verið rofin og innlent gas og rafmagn knýr ótal farartæki sem vonandi munu fjölga hratt og örugglega á næstu árum.  Það er von mín að þessar tölur hvetji okkur til að halda áfram á sömu braut og þjóðin verði fyrr en síðar óháð olíuinnflutningi með tilheyrandi umhverfis- og efnahagsávinningi. Merkilegast er þó að þessi árangur hefur náðst án þess að rýra lífsgæði eða hagvöxt í landinu. Við erum  sem sagt þjóð á uppleið með olíunotkun á niðurleið. Þetta eru jákvæð skilaboð sem eiga að vera okkur hvatning til áframhaldandi framfara.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×