Lífið

Ferð um himingeiminn og gjörningur í rútu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Búist er við miklu fjöri á Háskóladeginum.
Búist er við miklu fjöri á Háskóladeginum.
Námskynningarnar á Háskóladeginum sem fer fram í dag verða í Háskólanum í Reykjavík þar sem HR og Bifröst kynna sínar námsleiðir, í Háskóla Íslands þar sem HÍ, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands kynna námsleiðir sínar og í Listaháskólanum, Þverholti 11.

Rúta gengur á milli skólanna þriggja sem allir geta hoppað upp í og komist auðveldlega á milli bygginga sér að kostnaðarlausu.

„Um borð í rútunni verður sýndur gjörningur sviðslistanema úr Listaháskólanum í sjónvarpi þannig að fólk getur svo sannarlega notið þess að láta ferja sig ókeypis á milli,“ segir Björg Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi dagsins, og bætir við að margt fleira verði í boði. „Háskólinn í Reykjavík býður líka upp á áhugasviðspróf – þannig að fólk getur komist að því á staðnum hvað það ætti að gera við líf sitt,“ bætir Björg við, létt í bragði.

Allir sjö háskólar landsins standa að Háskóladeginum, en þar gefst verðandi nemendum og öllum öðrum færi á að kynna sér þær námsleiðir sem kenndar eru í íslenskum háskólum.

Skólarnir bjóða sameiginlega upp á um 500 námsleiðir.

Nemendur úr fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri kenna gestum og gangandi að taka fréttaviðtöl.

„Svo er það sem mér finnst einna áhugaverðast, en það er ferð um himingeiminn í stjörnuverinu í Öskju í Háskóla Íslands,“ heldur Björg áfram.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, setur daginn með formlegum hætti í Listaháskólanum, Þverholti 11, klukkan 12 í dag og dagskrá verður í boði í skólunum frá 12-16, ýmiss konar tónlist, vísindabíó, sýningar Sprengjugengisins í Háskólabíói og margt fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.