Lífið

Arctic Monkeys steggja á Íslandi

Sveitin hlaut Brit-verðlaun sem besta breska sveitin og fyrir bestu bresku plötu ársins.
Sveitin hlaut Brit-verðlaun sem besta breska sveitin og fyrir bestu bresku plötu ársins. Vísir/Getty
Hljómsveitin Arctic Monkeys er stödd hér á landi, til þess að steggja gítarleikara sveitarinnar, Jamie Cook. Sveitin er hér ásamt fleiri vinum Jamies, en hann kvænist kærustunni og glamúrmódelinu Katie Downes á næstunni.

Hljómsveitin lenti á Íslandi í fyrradag, og hyggst vera hér á landi yfir helgina til þess að steggja gítarleikarann fræga.

Sést hefur til sveitarinnar víðsvegar um borgina, meðal annars á Dönsku kránni við Ingólfsstræti á fimmtudagskvöld þar sem þeir voru ásamt fríðu föruneyti.

Með þeim í för var meðal annarra umboðsmaðurinn Ásgeir Guðmundsson.

„Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Ég hitti þá þarna fyrir tilstilli vinkonu minnar sem þekkir þá frá dvöl sinni í London og þeir voru ótrúlega opnir og skemmtilegir,“ segir Ásgeir og bætir við að hann sé mikill aðdáandi sveitarinnar.

„Við bara duttum í það,“ segir hann, léttur í bragði.

Í hljómsveitinni Arctic Monkeys eru Alex Turner, Jamie Cook, Nick O‘Malley og Matt Helders. Sveitin hefur átt mikilli velgengni að fagna og hlaut meðal annars Brit-verðlaunin sem besta breska sveitin og fyrir bestu bresku plötu ársins fyrr í þessum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.