Innlent

Dregur úr hagvaxtahorfum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur líklegt að hagvöxtur verði undir væntingum á seinni hluta þessa árs og minni en spár gerðu ráð fyrir.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að lækka stýrivexti í dag um 0,5 prósentustig meðal annars útaf minni hagvexti og minnkandi verðbólgu. Hagvöxtur var 0,5 prósent á fyrstu níu mánuðum þessa árs samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem voru birtar í lok síðustu viku. Þetta er langt undir spá Seðlabankans sem gerði ráð fyrir 2,9 prósenta hagvexti á þessu ári.

„Við erum svolítið hugsi yfir þessum tölum og erum ekki alveg viss um að þær endurspegli að fullu það sem er að gerast í hagkerfinu. Þess vegna þurfum við og fleiri að leggjast meira yfir þær og svo sjá hvað gerist þegar tölur Hagstofunnar verða kannski endurskoðaðar þegar nýjar tölur birtast í mars,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Margt bendi þó til þess að hagvöxtur sé undir væntingum.

„Það getur vel verið og ég held að það sé líklegt að við séum að horfa fram á eitthvað minni hagvöxt á seinni hluta þessa árs og kannski byrjun þess næsta heldur en okkar spár stóðu til en í hvaða mæli það er ekki ljóst og þarf ekki að vera mikið. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×