Körfubolti

Martin og Elvar nokkrum sekúndum frá því að tryggja LIU sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Vísir/Vilhelm
LIU Brooklyn bíður ennþá eftir fyrsta sigurleiknum á tímabilinu í bandaríska háskólaboltanum eftir 74-70 tap á móti Saint Joseph's í framlengdum leik í nótt.

Elvar Már Friðriksson var með 12 stig og 2 stoðsendingar á 27 mínútum og Martin Hermannsson var með 8 stig og 5 stoðsendingar á 36 mínútum. Elvar Már hitti úr 4 af 9 skotum sínum en 4 af 12 skotum Martins fóru rétta leið.

Fjórtán af tuttugu stigum íslensku strákanna í leiknum og jafnframt fimm af sjö stoðsendingum þeirra komu í endurkomu liðsins í seinni hálfleiknum.

Tveggja stiga karfa Martins og tvö víti Elvar Más komu LIU Brooklyn síðan í 67-64 þegar 10 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma en Saint Joseph's tryggði sér framlengingu með því að setja niður þriggja stiga körfu þegar 3,7 sekúndum voru eftir.

Saint Joseph's liðið skoraði síðan fjögur fyrstu stigin í framlengingunni og vann hana 7-3. LIU Brooklyn lenti tíu stigum undir í byrjun seinni hálfleiksins en kom til baka og var nokkrum sekúndum frá því að vinna frábæran endurkomusigur.

LIU Brooklyn hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á leiktíðinni en framundan er leikur á móti Stony Brook í Madison Square Garden á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×