Skoðun

Vits er þörf

Jón Birgir Eiríksson skrifar
„...Þeim er víða ratar,“ hugsa eflaust flestir nemendur Háskóla Íslands þegar þeir lesa titilinn hér að ofan. Setning þessi trónir tignarlega yfir Háskólatorgi, aðal samkomustað Háskólans. Seint myndi undirritaður þó saka háskólanema um að góna of oft upp í loft þótt þeir hljóti að gjóa augunum þangað reglulega og velta orðunum fyrir sér.

Enginn veit fyrir víst hver merking orðanna að ofan er, en þeim hefur þó verið ljáð eftirfarandi merking: Þeim sem ferðast víða hlotnast djúp þekking. Síðan er því bætt við að auðvelt sé að sitja heima í hugsunarleysi en þá sé maður þekkingunni fátækari. Vitaskuld, kynnu margir að hugsa. En speki þessi rímar þó ekki að öllu leyti við þá reynslu sem þekkist hér á landi. Hingað til hafa Íslendingar ekki þurft að ferðast lengra en niður í Vatnsmýri til að sækja sér menntun sambærilega þeirri sem víðar þekkist. Og um það hefur þjóðin sammælst, að öllum skuli tryggður aðgangur að menntun - kjósi þeir að mennta sig. Sú er líka raunin, fólk sækir í Háskóla Íslands og síðastliðna öld hefur þar skapast blómlegt menntasamfélag.

Þeim sem gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar, ætti að vera ljós sú ógn sem nú stafar að háskólasamfélaginu. Ítrekað hefur verið bent á afleiðingar þess fjársveltis sem viðgengist hefur síðustu ár. Þrátt fyrir háværar raddir innan og utan háskólans virðast stjórnvöld takmarkaðan áhuga hafa á áframhaldandi uppbyggingu menntakerfisins, þó uppbyggingin yrði samfélaginu öllu til heilla.

Gott fólk er grunnur góðs samfélags. Því er ekki að undra að í hnattvæðingu 21. aldarinnar er samkeppnin um mannauð orðin meginatriði í hugum manna. Metnaðarfullt fólk leitar þangað sem það getur best aukið við og ræktað þekkingu sína. Ef fram fer sem horfir, hvað gæði náms í Háskóla Íslands varðar, er landflótti námsmanna óumflýjanlegur. Þessu hafa nágrannaþjóðir okkar á norðurlöndum áttað sig á, auk fjölmargra annarra þjóða, en í mörg ár hefur Ísland rekið lestina hvað fjárveitingu til hvers nemanda varðar. Ef háskólinn á að halda stöðu sinni og fá tækifæri til eflingar og árangurs er ljóst að stjórnvöld þurfa að taka menntamál föstum tökum. Brýn þörf er á bótum.

Sú staðreynd er óásættanleg að árið 2014 spyrji stjórnvöld sig hvort vits sé þörf hér á landi. Hvort Ísland þurfi að státa af háskóla í fremstu röð. Í stefnu sinni hefur ríkisstjórnin lofað að grípa til aðgerða til bjargar þeirri hnignandi stofnun sem Háskóli Íslands er. Lítið bólar á björg þeirri og útlitið er slæmt.

Undirrituðum þykir ólíklegt að efnisfólki detti í hug að hanga hugsunarlaust heima hjá sér. Vits er þörf, þeim er víða ratar. Þeir sem leita, finna. Mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að Háskóli Íslands hafi burði til að svala þorsta þeirra sem þekkingar leita. Ef halda á uppi samkeppnishæfum háskóla hér á landi er það stjórnvalda að standa við orð sín. Það er stjórnvalda að sjá til þess að komandi kynslóðum standi Háskóli Íslands til boða. Þær rati ekki of langt.

Þessi grein er hluti af Áfram í fremstu röð - 10 daga átaki um menntamál


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×