Lífið

Óvíst hvort Ágústa Eva verði Lína næstu helgi - fleiri sýningum af leikritinu ekki aflýst

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Óvíst er hvort leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir geti leikið sterkustu stelpu í heimi, sjálfa Línu Langsokk, í Borgarleikhúsinu næstu helgi. Aflýsa þurfti sýningum síðustu helgi vegna þess að Ágústa Eva fékk vírus í raddböndin og missti röddina. 

Að sögn Alexíu Bjargar Jóhannesdóttur, kynningarfulltrúa Borgarleikhússins, verður fleiri sýningum ekki aflýst en næstu helgi er Lína sýnd fjórum sinnum. 

„Það er strax byrjað að æfa nýja leikkonu sem er til taks ef ske kynni að Ágústa Eva yrði ekki nógu góð næstu helgi,“ segir Alexía en það er leikkonan Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem æfir nú hlutverk Línu. Þórunn Arna útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010 og hefur meðal annars leikið í Ballinu á Bessastöðum, Dýrunum í Hálsaskógi, Macbeth og Vesalingunum.

Þeir sem áttu miða á sýningarnar sem var aflýst síðustu helgi fá miða á Línu í byrjun nóvember og verður gert vel við þá sem þurftu frá að hverfa.

„Það er kannski ágætt fyrir börn og foreldra að sjá að meira að segja sterkasta stelpa í heimi getur orðið veik,“ segir Alexía á léttum nótum og bætir við að heilt teymi, sem inniheldur til dæmis lækni, raddþjálfa og raddbandasérfræðing, aðstoði nú Ágústu Evu í þeirri von að hún nái sér fyrir næstu helgi.

„Við viljum vera viðbúin öllu en við ætlum að leyfa vikunni að líða og sjá hvernig röddin fer með hana. Ef læknir segir að röddin hennar sé ekki tilbúin í lok vikunnar þá falla allavega ekki niður sýningar,“ segir Alexía.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.