Skoðun

Fiskeldið styrkir byggðaþróun á Vestfjörðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Mannfjöldi í Vesturbyggð og Tálknafirði er í dag 1.246 íbúar og hefur fjölgað um 60 íbúa eða 5% frá árinu 2012 en þá var íbúafjöldinn kominn niður í 1.186. Ef spár ganga eftir verður fiskeldið á suðurfjörðunum mjög umfangsmikið á tiltölulega skömmum tíma. Vinnsla á afurðum frá eldinu verður mikil og þörf á auknum mannafla við vinnslu á afurðum. Sumar sjávarbyggðirnar eiga því nokkur atvinnutækifæri inni í fiskeldi sem eru handan við hornið, t.d. á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. Reikna má fastlega með að þróun íbúafjölda á suðurfjörðunum verði afar jákvæð á næstu árum.

Á Bíldudal er næg atvinna en miklar breytingar eru fram undan í atvinnulífinu á staðnum. Unnið er að undirbúningi á umfangsmiklu laxeldi sem gæti skapað 150 störf þegar fram í sækir. Viðfangsefnið þar er að búa samfélagið undir að taka á móti svo stóru fyrirtæki þannig að þróunin verði farsæl fyrir byggðarlagið.

Á Tálknafirði er stærsta atvinnugreinin sjávarútvegur og vinnsla en umsvifin í fiskeldi hvers konar fara vaxandi. Á staðnum eru starfandi tvær seiðaeldisstöðvar, önnur í eigu Dýrfisks og hin í eigu Arnarlax. Einnig rekur Tungusilungur landeldi og reykhús, Fjarðalax er með útibú á staðnum sem þjónustar laxeldi sem er í firðinum og í Tálknafirði er vísir að þorskeldi.

Patreksfjörður er kauptúnið í Vesturbyggð sem stendur við samnefndan fjörð, syðstan fjarða á Vestfjörðum. Íbúar hafa afkomu sína af sjávarútvegi, fiskvinnslu og fiskeldi sem og þjónustu við nágrannasveitir og ferðamenn. Fjarðalax er með laxeldi í firðinum og vinnslu á laxi í kauptúninu.

Uppbygging á suðurfjörðunum byggist í vaxandi mæli á fiskeldi og ferðaþjónustu sem styðja hvort annað. Þar má meðal annars nefna nýtt heilsárshótel á Patreksfirði, vinnslu og flutning á fiski frá Patreksfirði, uppbyggingu seiðaeldisstöðvar Dýrfisks í Norður-Botni í Tálknafirði og seiðaeldisstöðvar Arnarlax á Gileyri við Tálknafjörð, flutning á seiðum frá Tálknafirði í aðra firði, útsetningu 250.000 seiða á þessu vori hjá ­Arnarlaxi og fyrirhugaða byggingu á 3.000 til 4.000 fermetra vinnsluhúsi á Bíldudal.

Reikna má með að slátrað verði 3.500 tonnum af laxi í ár á suðurfjarðasvæðinu. Framleiðsla á laxfiskum mun fljótlega tvöfaldast á suðurfjörðunum og gera má ráð fyrir að fljótlega skapist enn meiri verðmæti í fiskeldi eða allt að þrjár milljónir króna á hvert mannsbarn á suðurfjörðum Vestfjarða.

Mikil samgöngubót er að nýrri Breiðafjarðarferju, Baldri, sem kom til Stykkishólms í apríl sl. Við komu ferjunnar tvöfaldast rými fyrir bíla, en nýja skipið tekur 45-50 bíla og um 300 farþega. Þörfin fyrir stærri ferju var orðin brýn enda hafa flutningar frá suðurfjörðunum aukist mikið með auknu fiskeldi og aukinni vinnslu ferskra sjávarafurða til útflutnings.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.