Skoðun

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sett á svið

Berglind Sigmarsdóttir skrifar
Það líður varla sá dagur að við fáum ekki fréttir af stöðu mála í Úkraínu. Helstu þjóðarleiðtogar heims reyna hvað þeir geta að finna lausnir.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur að sjálfsögðu rætt málið, en án samkomulags, eins og gerist og gengur. Öryggisráðið starfar eftir kerfi sem þjónaði samstarfi þjóða fyrir tugum ára en það hefur reynst erfitt að aðlaga starfsemi þess að nýjum tímum.

Framkvæmdastjóri samtakanna, Ban Ki-moon, heldur þó áfram á fundum sínum í Evrópu að benda á samkomulag hinna sameinuðu þjóða um að finna diplómatískar leiðir.

Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna segir meðal annars „....að til þess að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið, þá ætlum við að sýna umburðalyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir...“.

Öflugt starf Íslands á sviði Sameinuðu þjóðanna

Þó svo að Öryggisráðið reynist vanmáttugt að mörgu leyti hefur það óneitanlega mikið vald sem hefur áhrif á gang alþjóðamála. Margir muna kannski vel eftir kosningabaráttu sem við Íslendingar háðum á sviði SÞ árið 2009 til að komast í ráðið. Það tókst ekki en starf Fastanefndar Íslands hjá SÞ í New York er samt afar öflugt.

Saga okkar og samstarf með Sameinuðu þjóðunum er þess eðlis að ungmenni á Íslandi hafa rétt á metnaðarfullri kennslu um samtökin, stofnanir þeirra og starfsemi. Hver sá sem les stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í dag væri sammála. Uppbygging á þekkingu ungs fólks um Sameinuðu þjóðirnar er lykilatriði.

Starfsemi Öryggisráðsins kennd með IceMUN

Eina helgi á ári fer fram ein besta kennslustund sem um getur á landinu um Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og starfsemi þess. Þetta er ráðstefna sem kallast IceMUN og stendur fyrir Iceland Model United Nations.

Ráðstefnan er samlíking á Öryggisráðinu þar sem bæði innlendir sem erlendir nemendur á mennta- og háskólastigi setja sig í spor sendifulltrúa við úrlausn flókinna alþjóðlegra deilumála.

Fyrir ráðstefnuna fá þátttakendur úthlutað einu af 15 ríkjum Öryggisráðsins sem þeir síðan kynna sér til þess að geta fylgt stefnumálum þess eftir þegar á ráðstefnuna er komið.

Í ár verða mögulegar lausnir á Úkraínudeilunni ræddar og munu þátttakendur keppast við að koma sér saman um ályktun fyrir lok helgarinnar.

Samkomulag verður að nást með minnst níu atkvæðum og án þess að nokkurt ríki noti neitunarvald sitt gegn ályktuninni.

Verkleg kennsla í alþjóðlegum samskiptum

IceMUN ráðstefnan er gott tækifæri fyrir ungt fólk til að læra meira um starfsemi, vinnuaðferðir og starfsreglur Sameinuðu þjóðanna, æfa ræðuflutning á ensku og setja sig í spor sendifulltrúa annars ríkis.

Það merkilega er að nemendurnir finna iðulega lausn á deilumálum ráðstefnunnar. Þau eru ótrúlega vel að sér í málefnunum sem tekin eru fyrir og eftir helgina þekkja þau samskiptaleiðir ráðsins, eins stífar og þær nú eru.

Ráðstefnan verður haldin næstu helgi 4.-6. apríl í húsnæði Háskólans í Reykjavík og áhugavert verður að lesa lokaályktun fundarins um Úkraínu.

Slíkar MUN ráðstefnur eru haldnar á alþjóðavísu með ungu fólki allt niður í grunnskólaaldur. Verkleg kennsla í alþjóðlegum samskiptum er sjaldnast í boði en MUN samlíkingin er ein leið til að æfa grunntexta stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í verki þar sem segir að þjóðir skulu „...sýna umburðalyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir...“.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.






Skoðun

Sjá meira


×