Innlent

„Ég var á síðustu metrunum án þess að vita það“

Birta Björnsdóttir skrifar
Viðar Garðarsson fór í stóra hjartaaðgerð í september í fyrra eftir að í ljós kom að báðar aðalkransæðar til hjartans reyndust vera alveg stíflaðar. Hann segir ástandið hafa komið sér á óvart, enda varla kennt sér meins.

„Einu einkennin sem ég hafði var að þolið var að minnka. Vanalega var nóg að fara í nokkrar vikur í ræktina til að vinna aftur það sem ég hafði tapað. Í þetta sinn gekk það ekki og mér fannst það svolítið skrítið. Læknarnir sendu mig í segulómun sem er þessi nýja þrívíða myndataka og sáu þar að það voru alvarlegar stíflur í gangi. Ég var komin í akút hjartaþræðingu örfáum dögum seinna,“ segir Viðar.

„Maður segir stundum í gríni á dauða mínum átti ég von, en þannig var það í þessu tilfelli. Ég var á síðustu metrunum án þess að hafa hugmynd um það.“

Fyrir lá að Viðar þyrfti að undirgangast viðamikla hjartaaðgerð í kjölfar þræðingarinnar, og þá ákvað hann, ólíkt flestum í hans stöðu, að gera heimildarmynd um ferlið.

„Þegar maður er búinn að eyða ævinni í því að gera allskonar myndir og alltaf að biðja fólk um að treysta manni fyrir sögum sínum er auðvitað ekki hægt að sleppa þessu tækifæri. Ég þurfti að semja við sjálfan mig um að ég væri til í að sýna þetta, það er auðvitað smá ákvörðun að bera sjálfan sig með þessum hætti,“ segir Viðar.

Hann segir kveikjuna af heimildarmyndinni einnig mega rekja til fráfalls góðs vinar.

„Ég uppgötvaði að alveg ótrúlega margir ungir Íslendingar deyja úr hjarta-, æða eða lungnasjúkdómum. Örfáum dögum áður en þetta kom upp hjá mér vorum við góðvinur minn Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ, saman úti í Lúxemburg að skipuleggja smáþjóðaleika sem á að halda hér 2015. Svo líður rétt rúm vika og ég er kominn í bráðaaðgerð uppá spítala og hann fallinn frá. Báðir kolstíflaðir án þess að hafa hugmynd um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×