Innlent

Leiðtogasamtök fyrir unga Evrópubúa

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Samtök Rebekku hlutu styrk frá Evrópusambandinu til að halda sumarnámskeið í Kosovó.
Samtök Rebekku hlutu styrk frá Evrópusambandinu til að halda sumarnámskeið í Kosovó. Vísir/Samsett mynd
Rebekka Rún Mitra, 18 ára gömul stúlka og nemandi hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur stofnað til samtaka fyrir unga evrópska leiðtoga sem vilja gera samfélagið að betri stað. 

Samtökin heita Young European Leaders for Change (ísl. Ungir evrópskir leiðtogar fyrir breytingum), en markmið samtakanna er að stuðla að því að ungt fólk taki sér leiðtogahlutverk í fjölmenningarsamfélagi nútímans.

Oft er sagt að ungt fólk sé rödd framtíðarinnar. Mér finnst að ef við hjálpum ungu fólki að fá rödd núna þá getur það líka haft mikið að segja, ekki bara um framtíðina heldur líka daginn í dag," segir Rebekka í viðtali við Vísi.is.

Sumarnámskeið í Kosovó

Samtökin fengu verkefnisstyrk frá menningarsjóðnum Evrópa unga fólksins sem heyrir beint undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Styrkinn ætla Rebekka og samstarfsmenn hennar að nota til þess að halda sumarnámskeið fyrir ungt fólk í Pristínu, höfuðborg Kosovó.

Fjármagnið verður nýtt á þann hátt að þátttakendur námskeiðsins þurfa aðeins að borga 30% af heildarkostnaði ferðarinnar. Ungt fólk á aldrinum 16-19 ára frá Albaníu, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Kosovó, Litháen, Makedóníu, Noregi, Serbíu og Tyrklandi mun geta sótt um að taka þátt í námskeiðinu.

"Oft er það þannig að fólk úr Vestur-Evrópu veit kannski ekki mikið um þessi vandamál sem hafa verið í Austur-Evrópu, stríðin sem hafa verið þar," segir Rebekka. "Það er ótrúlega létt á Íslandi að vera bara inni í litlum heimi og vita ekki alveg hvað er að gerast fyrir utan þennan heim."


27 ungmenni fá að koma og taka þátt í námskeiðinu, og þar af 2 frá Íslandi. Aðspurð segir Rebekka einu kröfurnar varðandi inntöku í námskeiðið vera fróðleiksfýsn og vilji til að gera samfélagið að betri stað.

Hægt er að lesa meira um samtökin og námskeiðið á vefsíðu þeirra








Fleiri fréttir

Sjá meira


×