Innlent

Fleiri gefa bónda- og konudagsgjöf en Valentínusargjöf

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Karlar með lægri fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að gefa gjöf en þeir sem hafa hærri tekjur. Það sama á við um konur.
Karlar með lægri fjölskyldutekjur eru ólíklegri til að gefa gjöf en þeir sem hafa hærri tekjur. Það sama á við um konur. VÍSIR/GETTY
Fleiri gefa gjafir á bónda- og konudaginn en á Valentínusardaginn. Þjóðarpúls Gallup kannaði hversu útbreitt það væri á Íslandi að gefa gjafir á þessum þremur dögum.

Ríflega 39 prósent íslenskra karla gáfu konudagsgjöf 23. febrúar síðastliðinn en konudagurinn er fyrsti dagur góu. Nær 36 prósent kvenna gáfu bóndadagsgjöf á bóndadaginn 24. janúar síðastliðinn en hann er á fyrsta degi þorra.

Ríflega 10 prósent gáfu hinsvegar Valentínusargjöf sem var 14. febrúar.

Það hefur lengi tíðkast hér á landi að gefa gjafir á bónda- og konudaginn en styttra er síðan farið var að gefa gjafir Valentínusardaginn. Valentínusardagurinn á uppruna sinn að rekja til Evrópu en sumar af þeim hefðum sem deginum tengjast koma frá Bandaríkjunum.

Karlar undir þrítugu eru ólíklegri til að gefa konudagsgjöf en þeir sem eldri eru og karlar með lægri fjölskyldutekjur eru einnig ólíklegri til að gefa gjöf en þeir sem hafa hærri tekjur.

Konur með lægstu launin eru sömuleiðis að jafnaði ólíklegri til að gefa bóndadagsgjöf en tekjuhærri konur.

Yngra fólk gefur frekar gjafir á Valentínusardaginn en þeir sem eldri eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×