Innlent

"Konur lifa yfirleitt heilsusamlegra lífi“

Birta Björnsdóttir skrifar
Stefán Rafn Jónsson, félagsfræðingur hjá embætti landlæknis.
Stefán Rafn Jónsson, félagsfræðingur hjá embætti landlæknis.
Niðurstöður reglulegrar rannsóknar, sem ber yfirskriftina Heilsa og líðan Íslendinga, voru kynntar í dag þar sem fram komu ýmsar upplýsingar um andlegt og líkamlegt heilsufar landans árið 2012.

Rannsóknin hefur verið framkvæmd þrisvar frá árinu 2007 og er gert að mæla heilsu, líðan og lífsgæði landsmanna auk helstu áhrifaþátta heilbrigðis.

„Tilgangurinn með þessarri rannsókn er að fylgjast með heilsufari þjóðarinnar og sjá hvaða breytingar verða þar á. Einnig gera niðurstöðurnar okkur kleift að greina þetta eftir hópum samfélagsins,“ segir Stefán Rafn Jónsson, félagsfræðingur hjá embætti landlæknis. „Það er mjög mikilvægt að vera með góðan grunn, þekkingu og gögn til að við getum tekið réttar ákvarðanir.“

Framkvæmdaraðilar rannsóknarinnar segja niðurstöður hennar sameign þjóðarinnar og vonast til að fræðasamfélagið nýti niðurstöðurnar til áframhaldandi rannsókna. En hverjar skyldu helstu niðurstöðurnar vera?

„Við greinum niðurstöðurnar í þessari skýrslu eftir aldri kyni og árum og við sjáum að andleg líðan hefur verið að versna hjá ungum konum. Þær upplifa meira álag og eiga erfiðara með svefn og ýmislegt í þeim dúr. Við erum hinsvegar líka að sjá að heilsusamleg hegðun eins og næring og hreyfing hefur verið að batna auk þess sem reykingar og áfengisneysla dragast saman og þá sérstaklega hjá ungum körlum. Konurnar lifa yfirleitt heilsusamlegra líferni en karlarnir eru að taka sig á í þessum efnum,“ segir Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×